139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara hér aðeins yfir það sem ég komst ekki í að klára hér í fyrri ræðu minni. Ég vil byrja á því sem er að gerast með sveitarfélögin í landinu.

Nú liggur fyrir að áætlað er að tekjur sveitarfélaganna muni dragast saman um upp undir 7 milljarða á næsta ári og það er grafalvarleg staða. Hæstv. ríkisstjórn hækkaði í fyrsta lagi tryggingagjaldið 1. júní 2009 um 1,65%, sem þýddi útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélögin upp á 1 milljarð. Í stuttu máli má orða það þannig að kostnaðurinn hjá sveitarfélögunum vegna ársins 2009 hafi verið tæpar 800 milljónir og á árinu 2010, sem er nú að líða, tæpar 1.200 milljónir. Með þessum hætti hefur ríkið því tekið frá sveitarfélögunum 2 milljarða bara í þessu eina tilfelli, þ.e. um hækkun á tryggingagjaldi. Seinni hækkunin á tryggingagjaldinu — sem var í lok síðasta árs upp á 1,67%, sem kostar sveitarfélögin um 1.400 milljónir á þessu ári — var rétt af og hækkunin var greidd til baka, þ.e. á síðustu metrunum við samþykkt fjárlagafrumvarpsins í desember fyrir árið 2010 leiðrétti ríkið þessa skekkju gagnvart sveitarfélögunum. Að sjálfsögðu er það alveg með ólíkindum að ríkið skuli færa með þessum hætti tekjustofna eða leggja álögur á sveitarfélögin sem eru í raun og veru hinn opinberi aðili.

Í frumvarpinu sem við ræðum hér kemur síðan fram að það á ekki einu sinni að greiða til baka seinni hækkunina á tryggingagjaldinu sem kostar þá sveitarfélögin á næsta ári 1,4 milljarða, hvað þá fyrri hlutann sem er 1 milljarður. Nei, það á að færa tekjurnar frá sveitarfélögunum til ríkisins. Ég vara mjög eindregið við þessum ákvörðunum vegna þess að við vitum öll hver staða sveitarfélaganna í landinu er. Sveitarfélögin eru að veita viðkvæmustu grunnþjónustuna, þ.e. leikskóla, grunnskóla, félagsþjónustu og þar fram eftir götunum. Ég vara sérstaklega við þessu og vona svo innilega og treysti því að þetta verði leiðrétt í meðförum fjárlaganefndar.

Þessu til viðbótar ætlar ríkið ekki að greiða 1 milljarð í sérstakt framlag í jöfnunarsjóð, sem þýðir að á næsta ári munu tekjur sveitarfélaganna minnka, vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, um rúma 2 milljarða við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu í dag. Ég hef varað mjög við því að þetta sé gert. Í fyrsta lagi er það ofboðslega óréttlátt að gera þetta með þessum hætti, að taka tekjur frá sveitarfélögunum til ríkisins sem eru að mörgu leyti í sömu stöðu og ríkissjóður.

Bara til að benda á það sem verið er að gera annars staðar og kom nú fram á fundi í hv. samgöngunefnd um daginn: Hvað er til að mynda verið að gera í Danmörku? Þar er ríkisvaldið búið að skuldbinda sig til þess að létta af sveitarfélögunum kvöðum sem mun gera það að verkum að sveitarfélögin í Danmörku munu losna við verkefni, vil ég orða það, upp á 500 millj. dkr., 20 milljarða sem ríkið hefur skuldbundið sig til að greiða til að hjálpa sveitarfélögunum í gegnum kreppuna. Það eru viðbrögð stjórnvalda í Danmörku en þau eru önnur hér.

Við bankahrunið, sem varð í árslok 2008, brugðust sveitarfélögin miklu fyrr við aðstæðum en ríkið. Þeir fóru í aðhaldsaðgerðir, fóru í mikinn sparnað og það var miklu fljótvirkara hvernig það var gert. Af því að alltaf er verið að tala um aukna samvinnu þá var það eftirtektarvert að í mörgum sveitarfélögum um allt land — alveg sama hverjir voru að stýra þeim, hægri menn eða vinstri menn, það skipti engu máli — sameinaði fólkið kraftana strax og stóð saman við þær erfiðu ákvarðanir sem voru teknar. Það þurfti að skera niður og það er erfitt að gera það þegar fólk er í sveitarstjórn þegar ganga þarf að grunnstoðunum alveg eins og hér. En hvað gerðist? Með einu pennastriki tók ríkisvaldið alla hagræðinguna sem átti sér stað á árinu 2009 með því að leggja aukaálögur með tryggingagjaldi á sveitarfélögin, þ.e. það hrifsaði alla hagræðinguna frá sveitarfélögunum yfir til sín. Þetta er mjög óréttlátt.

Ég teldi eðlilegast, virðulegi forseti, að samgöngunefnd hv. Alþingis mundi setjast niður með sveitarfélögunum í landinu til þess að reyna að létta af þeim álögum og hjálpa þeim í gegnum þennan erfiðasta hjalla sem fram undan er. Það væri mjög æskilegt að hafa hlutina með þeim hætti.

Sveitarfélögin hafa t.d. óskað eftir viðræðum við menntamálaráðuneytið um hugsanlegar breytingar á grunnskólanum, hvort hugsanlega mætti stytta tímann, kenna dálítið færri tíma á viku, stytta hann í annan hvorn endann í dögum, því hefur öllu verið hafnað. Á sama tíma er ríkið búið að fresta gildistöku laganna um framhaldsskólana. Ég tel, virðulegi forseti, að við verðum að sýna miklu meiri ábyrgð í þessu.

Nú á að draga saman niðurgreiðslur á húsnæðiskostnaði hjá fólki úti á landsbyggðinni, um 16%, og þetta var líka gert við síðustu fjárlög. Frumvarpið gengur mjög nærri landsbyggðinni og sýnt er fram á að hagræðingin í heilbrigðisráðuneytinu er nær 85% á stofnanir úti á landsbyggðinni, 15% hér á höfuðborgarsvæðinu. Því til viðbótar þarf að lækka niðurgreiðslur í húshitunarkostnaði um 16%. Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Það eru um 10% af þjóðinni sem þurfa að kynda með rafmagni, þetta eru 30 þúsund manns. Hvað þýðir þetta í tölum, virðulegi forseti?

Við munum eftir umræðunni sem átti sér stað hér í höfuðborginni um daginn þegar verið var að fara í mjög massívar hækkanir hjá Orkuveitu Reykjavíkur vegna ástandsins þar. Nú kostar um 21.500 kr. að kynda einbýlishús hér í Reykjavík á mánuði. En eftir þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar kostar það úti á landsbyggðinni, hjá þessum fámenna hópi landsmanna, 555 þúsund á ári en það kostar 215 þúsund í Reykjavík. Munum við ekki öll eftir allri þeirri umræðu sem átti sér stað þegar þessi gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar átti sér stað? Þetta er enn ein aðförin að landsbyggðinni í þessu frumvarpi og er alveg hreint með ólíkindum ef þetta á að ganga svona eftir.

Tíminn líður hratt og mig langar aðeins að koma inn á það sem heitir grunnur fjárlaganna, hvernig þau er. Mig langar að taka eitt dæmi — ég fagna því að hæstv. ráðherra kemur hér í salinn — sem við verðum að taka til gaumgæfilegrar skoðunar í vinnu fjárlaganefndar núna í haust, það eru svokallaðar sértekjur stofnana. Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að það er fullt af stofnunum sem hafa sértekjur og meira að segja nánast beint innan úr Stjórnarráðinu. Sem dæmi má nefna Hafrannsóknastofnun sem fær tekjur beint í gegnum úthlutun í VS-afla eða svokölluðum Hafró-afla sem gerir það að verkum að stofnunin hefur beinar tekjur án þess að það komi fyrir þingið. Eftir að hafa skoðað þetta, virðulegur forseti, er niðurstaða mín sú að til að mynda á árinu 2009, því að nú hefur maður ekki þessar upplýsingar fyrir árið 2010, var í fjárlögum gert ráð fyrir því, og í fjáraukalögum og öllu því sem því fylgdi, að Hafrannsóknastofnun hefði rúma 2,1 milljarð til ráðstöfunar. Niðurstaðan varð hins vegar sú að fjármunirnir sem Hafrannsóknastofnun nýtti fyrir rest voru rúmir 2,4 milljarðar, tekjur stofnunarinnar og reksturinn var 14% meiri en búið var að samþykkja hér í fjárlögum Alþingis.

Virðulegi forseti. Við þær aðstæður sem nú eru uppi er gríðarlega mikilvægt — og þetta er bara ein stofnun af mörgum — að við förum yfir þennan þátt til að vita hvert er gildi og aðhald fjárlaganna í því sem er fram undan. Það er ekki hægt að fara að skera niður í heilbrigðisþjónustunni og hvar sem það er, eins sársaukafullt og það er, og síðan skuli vera stofnanir sem hafa (Forseti hringir.) þannig sértekjur að það jafnvel bæti í á milli ára. Það er algjörlega óþolandi og ólíðandi.