139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir og fagna því sem hann segir að hann muni óska eftir nánara samstarfi við sveitarfélögin um útfærslu við gerð fjárlagafrumvarpsins. Það er mjög mikilvægt að það verði gert. Það er hins vegar viðtekin venja og við vitum það öll sem höfum fylgst með — ég hef starfað dálítið í sveitarstjórnarmálum — að samskipti ríkis og sveitarfélaga í gegnum tíðina hafa verið dapurleg og það er ekkert sem hefur verið bara í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það er búið að vera í tíð margra ríkisstjórna þar á undan. Þess vegna fagna ég sérstaklega þessari yfirlýsingu og tek alveg heils hugar undir með hv. þingmanni um það. Við eigum báðir sæti í samgöngunefnd og fjárlaganefnd og ég mun ekki skorast undan því að leggja mitt af mörkum til að samstarfið þar verði gott.

Hv. þingmaður benti réttilega á leiðréttinguna á seinni hluta tryggingagjaldsins sem ákveðið var 1.200 millj. við lokaafgreiðslu fjárlaga í fyrra og var meira að segja tekið út úr óskiptum lið hæstv. fjármálaráðherra en það er ekki eins og hv. þingmaður sagði að sveitarfélögin hafi alla tíð gert sér grein fyrir því að þetta væri einskiptisaðgerð, þ.e. að þetta væri eingöngu vegna ársins 2010. Forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga stóðu í þeirri trú að það ætti að vera áfram. Það segir okkur kannski hvað það er þá mikilvægt að hafa samstarfið við sveitarfélögin nánari en það hefur verið ef menn hafa misskilið þetta. Þeir stóðu í þeirri trú að þetta væri leiðrétting, að seinni hlutinn á tryggingagjaldinu yrði leiðréttur, þetta væri ekki bara einskiptisaðgerð heldur yrði þetta þannig á meðan tryggingagjaldið væri svona hátt. Þess vegna veldur þetta miklum áhyggjum hjá fjölda sveitarstjórnarmanna í landinu og það mun væntanlega koma í ljós í heimsóknum til fjárlaganefndar á næstu dögum.