139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég á þó bágt með að trúa því, en hef reyndar ekki innt fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga eftir því eða aðra sveitarstjórnarmenn, að þeir hafi staðið í þeirri trú að sú aðgerð sem farið var í varðandi framlagið á fjárlögum ársins 2010 væri til frambúðar, enda kemur það mjög skýrt fram að hún er það ekki. Það er til tiltekins tíma, það er til yfirstandandi fjárlaga en ekki til lengri tíma. Það kemur mér því verulega á óvart ef það er rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að menn stæðu í þeirri trú að þetta væri aðgerð til frambúðar og því hefði það komið þeim í opna skjöldu að svo væri ekki.

Það er sömuleiðis rétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði áðan að það var viðtekin venja að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru frekar broguð og ekki góð á köflum. Því er full ástæða til að reyna að bæta þar úr og það held ég að okkur hafi tekist. Ég held að samskipti ríkis og sveitarfélaga hafi í kjölfar þessa hruns verið með betra móti en oft áður og reyndar oftast áður. Fyrir því hef ég orð forsvarsmanna Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er af hinu góða og við munum leggja okkur fram við það nú á haustdögum í framhaldi af þeirri vinnu sem hér er unnin og þegar breytingar á sveitarstjórnarlögum koma inn á okkar borð að reyna að bæta þau samskipti enn frekar en þegar er orðið. Við munum reyna að hafa umræður okkar á milli bæði formlegar og óformlegar um þau mál sem rædd verða og snerta fjármál sveitarfélaga sérstaklega. Það er hlutur sem er aukið vægi í, þ.e. hvað fjárlög hvers árs og fjármál ríkis og sveitarfélaga eru orðin samtvinnuð, og því ber að hafa (Forseti hringir.) gott og aukið samstarf um hvort tveggja.