139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga stóðu hins vegar í þeirri trú að leiðréttingin héldi áfram, við þurfum ekki að ræða það efnislega, ég og hv. þm. Björn Valur Gíslason, en sá var skilningur þeirra.

Hv. þingmaður segir að hitt komi skýrt fram í fjárlögum ársins 2010. Auðvitað gefur það augaleið að fjárlögin 2010 fjalla um árið 2010 þannig að það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að ekki sé sérstaklega getið um að það eigi að gilda áfram. Það segir sig algerlega sjálft.

Nú ætlum við að taka umræðuna á miklu hærra plan, nú ætlum við að fara að skilgreina fjárhagsskuldbindingar og rekstur hins opinbera, samspil rekstrar ríkis og sveitarfélaga gagnvart hagstjórn og þar fram eftir götunum, og vinna okkur í þá átt, sem er mjög skynsamlegt. Þá kem ég að því eina ferðina enn að ríkið getur fært tekjur sveitarfélaganna til sín. Mér finnst það mjög óréttlátt að það sé gert því að sveitarfélögin eru mörg í miklum erfiðleikum, því miður. Og ekki bara það, ríkisvaldið hefur síðan gengið fram með þeim skattahækkunarpíningum sem búið er að lögleiða hér, það var gert sl. haust, þannig að svigrúm sveitarfélaganna til frekari skattahækkana er ekki fyrir hendi og flestir skattstofnar sveitarfélaganna eru þegar fullnýttir. Mér fyndist það því skynsamlegra og eðlilegra ef við mundum fara aðra leið og læra meira af því sem verið er að gera annars staðar, t.d. í Danmörku, og setjast yfir málið með sveitarfélögunum og reyna að finna þau verkefni sem hægt væri að létta af þeim til að tryggja að þau geti sinnt þeirri grunnþjónustu sem er svo gríðarlega mikilvægt að þau sinni vel.