139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það hafa verið athyglisverðar umræður í dag um fjárlagafrumvarpið og niðurskurð sem er síður en svo auðvelt fyrir nokkurn mann að fara í. Það er engu að síður verkefni sem við þingmenn verðum öll að fara í og reyna að vinna af einhverri skynsemi og helst í sem mestri sátt. Við erum þó að ná sameiginlegum áhersluatriðum, markmiðum, þ.e. við viljum ná niður halla ríkissjóðs, við viljum stuðla að því að verja velferðina eins og hægt er án þess þó að blekkja neinn því að við þurfum engu að síður að skera niður á þeim erfiðu sviðum sem og öðrum.

Ég fagna því sérstaklega fagna og ég tel mikilvægt að draga það fram að nú er lag bæði innan fjárlaganefndar og innan þingsins, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að reyna að ná samkomulagi og ákveðnu samráði um fjárlögin, um vinnulag. Ég hvet forustumenn allra flokka hér á þingi til þess að grípa þá bolta sem gefnir hafa verið upp í dag. Ég er búin að hlusta á velflestar ræður í kringum fjárlagaumræðuna og ég hef sérstaklega tekið eftir þeim þíða tóni sem er á milli manna í ræðum. Auðvitað er áherslumunur og sjálfstæðismenn fara á svipaðar slóðir og hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um og þar áður Pétur Blöndal, varðandi skattahækkanir og skattalækkanir.

Ég dreg ekki dul á að við sjálfstæðismenn vorum eindregið á móti skattahækkunum í fyrra og á þessu ári og við erum líka á móti þeim skattahækkunum sem boðaðar eru. Þær eru gríðarlega miklar og nokkuð lúmskar ef við skoðum öll neyslugjöldin og leyfisgjöldin sem hækka samkvæmt mínum útreikningum um 33% á milli ára, þannig að það sé nefnt. Eins og menn töldu að það væri óráð að lækka skatta á þenslutíma teljum við sérstaklega mikið óráð að hækka skatta þegar svona árar. Við verðum að hafa umhverfið aðlaðandi fyrir fyrirtækin, fyrir fjárfesta sem vilja koma hingað með fjármagn. Við viljum gera umhverfið þannig að menn vilji fara í atvinnurekstur, vilji fara inn í ákveðið umhverfi sem skapar síðar tekjur. Við eigum að gera allt til þess að gera umhverfið hvetjandi í því tilliti því að við þurfum að skapa störf, við þurfum að skapa atvinnutækifæri því að störf þýða beinar tekjur í ríkiskassann. Það hangir allt saman.

Alla vega einn hv. þingmaður Vinstri grænna, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, hefur tekið undir tillögur okkar sjálfstæðismanna um skattlagningu séreignarsparnaðar. Hún hefur sagt að það gæti þýtt verulegar tekjur fyrir sveitarfélögin sem berjast nú í bökkum. Við vitum að það eru sveitarfélög á válista hjá verðandi innanríkisráðuneyti og við vitum það líka að ríkissjóður gæti með þessu móti komið sér hjá því að ráðast á ákveðna þætti velferðarkerfisins sem fyrirhugað er. Hér hefur verið nefndur niðurskurður á heilbrigðisþjónustu í Þingeyjarsýslum, sem er gríðarlegt högg fyrir það svæði og virðist algjörlega hafa verið gert án samráðs við hlutaðeigandi aðila. Ég get líka nefnt kragasjúkrahúsin sem eru beðin um að hagræða um allt að 40%. Það er hægt að fara í ýmsa þessa þætti og gagnrýna en þá verðum við að koma með tillögur á móti. Tillögur okkar sjálfstæðismanna eru ekki í einhverjum 5 eða 10 milljónum, við erum að tala um að bæta rekstrarafkomu ríkissjóðs verulega eða sem nemur um 70 milljörðum til viðbótar 45 milljörðum til sveitarfélaganna. Það skiptir máli að við fáum betri undirtektir en verið hefur í þessum málum og það er greinilegt að það er einhver togstreita innan ríkisstjórnarflokkanna um hvort ljá eigi máls á tillögum okkar sjálfstæðismanna hvað þetta varðar.

Ég gæti tínt ýmislegt til í þessu fjárlagafrumvarpi en fyrst og fremst vil ég segja að ég tel rangt að fara þær leiðir sem ríkisstjórnin leggur til, þ.e. skattahækkunar- og gjaldahækkunarleiðir. Ég tel líka að það skipti mjög miklu máli að efnahagsforsendurnar standist ekki bara heldur að þær verði betri en var spáð fyrir þetta ár. Við skulum muna að samdrátturinn í hagvexti á þessu ári er meiri en Hagstofan spáði fyrir um. Af hverju er það? Jú, þá komum við harðkjarnapólitíkinni, hvaða atvinnumálapólitík við viljum reka hér í landinu, og að mínu mati og margra annarra í þinginu hefur ríkisstjórnin — ekki kannski alltaf vísvitandi en þó oftar en ekki — komið í veg fyrir ákveðin atvinnutækifæri út af hugmyndafræði einni saman. Þá er ég með ákveðin verkefni í huga sem tengjast t.d. Suðurnesjunum og uppbyggingu á heilbrigðissviðinu af því að það eru einstaklingar sem koma þar að en ekki hið opinbera. Þess vegna voru menn á móti því. Hið sama gegnir um svonefnt hernaðarverkefni sem tengist ECA og fleiri verkefni má nefna. Það má líka nefna gagnaverið sem ég vonast til að komist á laggirnar sem allra fyrst.

Ég gæti farið í það að tína eitt og annað til sem frekar væri hægt að skera niður en það sem við höfum talað um í dag innan heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og menntakerfisins. Ég er algjörlega á móti því að settar séu til að mynda 37,4 milljónir í rekstur Fjölmiðlastofu. Ég held að þetta sé ekki tíminn til þess að leggja til viðbótarfjármagn í nýtt ríkisapparat, ég tel að það sé röng forgangsröðun, svo að dæmi sé tekið.

Ég vek líka athygli á því að viku eftir að sjálfstæðisyfirlýsing var gefin af hálfu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er Alþingi gert að skera niður um tæp 7%. Gott og vel, þingið á ekkert að vera undanskilið því að hagræða en það er í hróplegu ósamræmi við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið. Ekki síður er það algjörlega úr samhengi við það sem ríkisstjórninni er gert að spara hjá sér, þar er enginn niðurskurður á liðum sem snerta ákveðna þætti og eru samtals upp á 214 milljónir. Þeir eru óbreyttir á meðan þinginu er gert að skera niður. Það er ekki í samræmi við það sem menn hafa talað um, að efla og auka virðingu þingsins. Framkvæmdarvaldið passar upp á sig hvað þetta varðar.

Ég hef líka velt fyrir mér hvaða umræða hefur verið innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins varðandi rekstur háskóla. Það er alveg ljóst að háskólastigið er ekki undanskilið hagræðingarkröfum. En þar kemur hugmyndafræðin enn og aftur inn, það sem er einkarekið lýtur meiri hagræðingarkröfu en það sem snertir opinbera háskóla og ég velti fyrir mér af hverju það er. Ég tel mikilvægt að hagræðingarkrafan sé skýr og að hún sé ekki meiri til þeirra sem eru að reka Háskólann í Reykjavík eða Háskólann á Bifröst.

Hins vegar verður að segjast eins og er að ég vil gjarnan sjá því fylgt eftir af hálfu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra — hún hefur að mínu mati gert marga góða hluti í ráðuneyti sínu, hún á hrós skilið fyrir að hún hefur haft forgöngu um að efla samvinnu háskólastofnana, ekki bara hinna opinberu heldur er líka ætlunin auka samvinnu hinna einkareknu háskólastofnana. Ég vil að við tölum líka um það á þessu þingi að fara í enn frekari sameiningar, m.a. til hagræðingar á háskólastigi.

Ég sé að ræðutíminn er að renna út, enda er hann knappur en það sem ég vil fyrst og fremst draga fram fyrst hæstv. fjármálaráðherra er staddur í salnum er eftirfarandi: Hvaða áhrif telur hæstv. ráðherra að það muni hafa á heimilin og skuldir heimilanna þegar vísitalan hækkar vegna hækkunar bensíngjalds annars vegar og áfengis- og tóbaksgjalds hins vegar, eins og tillögur eru um í fjárlagafrumvarpinu, sem við vitum að hefur áhrif á vísitöluna? Deilir hann áhyggjum mínum af því hvaða áhrif það mun hafa á skuldir heimilanna? Og jafnframt: Hvaða þýðingu telur hann að hækkanir á neyslugjöldum muni hafa fyrir komandi kjaraviðræður? Þær eru mjög viðkvæmar og við heyrum að aðilar vinnumarkaðarins hafa til þessa lýst yfir mikilli vantrú og vantrausti á ríkisstjórnina og aðkomu hennar að kjarasamningum og kjarasamningagerð. Hvernig metur hann tillögur sínar í fjárlagafrumvarpinu varðandi hækkun á neyslugjöldum sem síðar munu hafa áhrif á vísitöluna (Forseti hringir.) og þar með skuldir heimilanna?