139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins í viðbót um verðbólguna. Það er eitt sem leggst með okkur að verðbólgan hefur lækkað hratt að undanförnu. Verðbólgulækkunin á síðari hluta ársins er talsvert meiri en spár höfðu gert ráð fyrir. Hún endar núna í september í 3,7% á ársgrundvelli miðað við síðustu 12 mánuði. Verðhjöðnun upp á 1,6% síðustu þrjá mánuði sem leiðir til lækkunar á verðtryggðum lánum og öðru slíku þannig að þróunin er tvímælalaust jákvæð. Undirliggjandi verðbólguþrýstingur er eðli málsins samkvæmt afar lítill í hagkerfi í niðursveiflu eins og við höfum búið við. Flestir meta það svo að haldist raungengi stöðugt, ég tala ekki um ef það styrkist áfram, það hefur þegar styrkst um 14% á þessu ári, þá séu allar horfur á því að verðbólgan fari fljótlega inn fyrir viðmiðunarmörk Seðlabanka.

Samráð var við aðila vinnumarkaðarins. Þeim var kynnt, og unnið með þeim á sínum tíma, efnahagsáætlunin sem farið er eftir. Það lá nokkuð ljóst fyrir hvaða verkefni biðu okkar á árinu 2011 þegar sú vinna var í gangi á vormánuðum 2009. Ég átti fundi með öllum aðilum vinnumarkaðarins og heildarsamtökum sem standa eða stóðu að svokölluðum stöðugleikasáttmála í vor strax þegar ljóst var hverjir rammarnir yrðu í fjárlagagerðinni. Ég upplýsti forustumenn allra þessara aðila í trúnaði um það hver yrði grundvöllur fjárlagafrumvarpsins. Það má segja því liði til hróss að mjög vel var farið með þær upplýsingar. Að öðru leyti var ekki um samráð að ræða yfir sumarmánuðina fyrr en ég kynnti sömu aðilum frumvarpið áður en það kom fram.