139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Vefritið Pressan greinir frá því að til hafi staðið í nóvember árið 2008 af hálfu nýja Kaupþings, sem nú heitir Arion banki, að ráðast í almennar aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila sem menn töldu þá þegar vera mjög aðkallandi. Hins vegar hafi borist skilaboð frá stjórnvöldum á þeim tíma til stjórnar bankans um að það væri pólitískt óæskilegt að ráðist yrði í slíkar aðgerðir. Þekkir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til þessa máls eða sér hann ástæðu til að grafast fyrir um það og hver er afstaða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til almennra aðgerða í skuldamálum núna? Tekur hann undir það með þingflokki framsóknarmanna að það sé löngu orðið tímabært að menn fari að huga að skuldamálum heimilanna á almennum nótum eða með almennum aðgerðum, enda hafi sýnt sig nú þegar, eins og reyndar var bent á fyrir tveimur árum, að þær sértæku aðgerðir sem lagt var upp með hafi ekki gengið upp. Meðal annars hefur hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir lýst því yfir í viðtali að hluti af þeim lögum sem hæstv. ráðherra setti til að taka á þessum vanda hafi ekki dugað til. Getur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tekið undir það að við sjáum nú þegar að almennar aðgerðir í skuldamálum heimila og raunar fyrirtækja líka séu óhjákvæmilegar?