139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég las þessa frétt á vefritinu Pressunni í dag og get ekki skilið hana þannig að starfsmenn Kaupþings á þeim tíma hafi verið að stinga upp á almennum aðgerðum til skuldaleiðréttinga öðrum en þeim að færa skuldabyrði niður í 80–110% af verðmæti eigna og að þeir sem hefðu orðið fyrir miklu tekjufalli gætu greitt eins og þeir gætu komist af með með því að greiða í samræmi við getu í tvö ár. Við lögfestum í mars 2008 þá meginreglu að skuldir bæri að skrifa niður í 80–110% af verðmæti eigna með því að lögfesta greiðsluaðlögunarlögin þá og við lögfestum líka lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána sem fólu í sér að fólk gæti greitt í allt að fimm ár í samræmi við getu ef það hefði orðið fyrir tekjufalli.

Haustið 2009 styrktum við lagagrundvöllinn enn frekar að þessu leyti og mæltum fyrir um við fjármálakerfið að laga ætti greiðslubyrði fólks að greiðslugetu og veðrými eigna þannig að það hafa verið alveg skýr skilaboð frá löggjafanum að þessu leyti. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu seint hefur gengið í bankakerfinu að vinna í samræmi við þessi skýru fyrirmæli. Við munum auðvitað reyna að leita leiða til að ryðja þeim hindrunum úr vegi og erum í samræðum við bankana um það akkúrat núna. Ég get því ekki lesið að í þessu felist einhver yfirlýsing um almennar niðurfellingar skulda á þessum tíma.

Að því er varðar almenna niðurfellingu skulda hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að ef menn geta sýnt fram á leiðir til að láta það gerast án stórfelldra eignatilfærslna í landinu, án þess að við séum að flytja byrði frá einum hópi þjóðfélagsþegna á annan og án þess að ríkissjóður þurfi að bera af því miklar byrðar, þá er ég alveg til viðræðu um það ef um það getur orðið samfélagsleg sátt.