139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er efnahagslega afskaplega brýnt að bankakerfið skili því svigrúmi sem það hefur til fyrirtækja í landinu og til heimila í landinu með því að lækka skuldir sem er óraunsætt að innheimta. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er vissulega hætta á því að bankakerfið geri það ekki heldur sitji einfaldlega og skili þessum ávinningi ekki til efnahagslífsins. Við eigum allt undir því í efnahagslegri endurreisn að fyrirtækin fái fast land undir fætur og heimilin líka. Það er grundvallaratriði að bankakerfið skili öllu því svigrúmi sem bankakerfið hefur til fyrirtækja og heimila. Það verður að gerast hratt og að því vinnum við nú.

Ég legg á það áherslu að ef menn finna eitthvert annað svigrúm, frekara svigrúm til að mæta heimilum í landinu með öðrum og ríkari hætti með almennum niðurfellingum (Forseti hringir.) er það auðvitað umhugsunarefni en það verður þá að sýna fram á að það svigrúm sé fyrir hendi. Ég held að fyrsta skrefið sé það að bankarnir skili til fyrirtækja og almennings því svigrúmi sem þeir hafa.