139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

samskipti umhverfisráðherra við sveitarfélögin.

[14:33]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Enn einu sinni siglir hæstv. umhverfisráðherra gegn sveitarfélögum í landinu, sýnir þeim vanvirðingu, lítilsvirðingu og ofbeldi. Ég er að tala um mál sem ráðherra vék eilítið að áðan, afgreiðslu gagnvart Flóahreppi. Það er dónaskapur af hæstv. ráðherra að ganga til verka eins og hún gerir.

Það er rík ástæða til þess að treysta sveitarfélögum landsins, treysta sveitarstjórnarmönnum, treysta þeirri reynslu og hefð sem verið hefur í uppbyggingu landsins um langt skeið en ganga ekki gegn verkum sem eiga að vera landi og þjóð til framfara og hamingjuauka, síst af öllu á þeim stundum sem nú eru. Það er því spurning hvort þessi aðför hæstv. umhverfisráðherra kunni að byggjast á mannvonsku eða mannhatri, er það svo alvarlegt? Hvað liggur að baki þessum blaðurtilfinningum, þessum orðflækingshætti sem er ástundaður í ráðuneyti hæstv. ráðherra? Byggist vinnan þar undir stjórn hæstv. ráðherra á því að spila borðspil, matador og ýmis kunn borðspil, og láta síðan reka á reiðanum hvaða ákvörðun er tekin? Ráðherra brosir í kampinn. Fólkið í landinu brosir ekki í kampinn. Það þolir ekki þessi vinnubrögð. Það þolir ekki að ráðherra sýni ekkert sem heitir verkvit, reynsla eða þor.