139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

samskipti umhverfisráðherra við sveitarfélögin.

[14:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina en verð að viðurkenna að mér er ekki alveg ljóst út á hvað hún gekk nema þá ef hún væri tilraun til skapandi málnotkunar og nýyrðasmíðar. Orðið „orðflækingsháttur“ er t.d. nýtt í minni orðabók (ÁJ: Lærðu þá.) og áskil mér rétt með tilvísun til orðasmiðs að brúka það víða hér eftir og jafnvel með viðkomandi í huga.

Hér voru notuð og flækt saman hvílík orð sem voru aðför, mannvonska, mannhatur, dónaskapur, ofbeldi, lítilsvirðing, blaðurtilfinning og orðflækingsháttur allt á tveimur mínútum og er bara töluvert. En ég verð að segja við hv. þingmann og þingheim allan: Ég á minn pólitíska bakgrunn í sveitarfélagi og er sveitarstjórnarmaður að upplagi og ég leyfi mér að vera það líka sem umhverfisráðherra. Ég legg mikla áherslu á samstarf við sveitarfélögin en ég legg ekki áherslu á samskipti með þeim hætti sem þingmaðurinn viðhefur hér í ræðustóli og eru honum til skammar, þinginu til lítilsvirðingar og ekki það sem íslensk þjóð vill heyra núna.