139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

samskipti umhverfisráðherra við sveitarfélögin.

[14:37]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég nota nýyrði um hæstv. umhverfisráðherra og það stenst öll rök íslenskrar tungu, öll rök, líka reynslan á bak við það, viðmiðunin í því, orðflækingsháttur. Þetta snýst um það, virðulegi forseti, af því að hæstv. ráðherra sagðist ekki skilja spurninguna, spurningin snýst um það að það gengur ekki að draga endalaust lappirnar, draga endalaust lappirnar, draga endalaust lappirnar og ganga ekki til verka. Þetta snýst um það, virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra sagðist eiga sinn pólitíska bakgrunn í sveitarfélagi. Ekki er svo að sjá nema að sá pólitíski bakgrunnur byggi á því að hennar sveitarfélag hefur forgang að svo mörgu í þjóðfélaginu, forgang að fjármagni, öryggi og slíku (Forseti hringir.) sem lítil sveitarfélög hafa ekki. Og það er ekki vanvirðing að verja fólkið í landinu, það er mikilvægt og til þess eigum (Forseti hringir.) við að vera hér en ekki að stunda orðflækingshátt.