139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram venju samkvæmt og samkvæmt stjórnarskrá við upphaf hvers þings, frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur gefið nafnið hin raunverulegu hrunfjárlög. Ég held að um þetta fjárlagafrumvarp megi hafa mörg orð. Það verður í sjálfu sér eðli málsins samkvæmt ekki hægt að komast yfir öll þau atriði sem maður vildi gjarnan ræða. Ég vil byrja á því að taka það fram í upphafi þessarar umræðu, ef hún getur haldið áfram fyrir fundahöldum annars staðar í salnum, að þegar forsendur þessa frumvarps eru skoðaðar, sá grunnur sem frumvarpið byggir á, hlýt ég að komast að þeirri niðurstöðu að lítið sem ekkert sé að marka fjárlagafrumvarpið. Þar skiptir auðvitað máli að sú hagvaxtarspá sem er ein af meginforsendum þessa frumvarps gengur að mínu mati ekki upp.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að í hagvaxtarforsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að farið verði í Helguvíkurverkefnið? Mér finnst býsna merkilegt að hæstv. forsætisráðherra leggi fram frumvarp til fjárlaga á slíkum forsendum þegar hann veit að innan hans eigin flokks og innan ríkisstjórnarinnar eru aðilar sem gera allt til þess að stöðva það verkefni og önnur atvinnuuppbyggingarverkefni í stóriðju og á öðrum sviðum þar sem orkuöflun og orkunýting er nauðsynleg.

Hæstv. ráðherra verður að svara því hvernig á því stendur að sú hagvaxtarspá sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í svo miklu ósamræmi við aðrar spár sem komið hafa frá öðrum greiningaraðilum. Ég nefni t.d. Arion banka, þar er gert ráð fyrir miklu minni hagvexti en hæstv. fjármálaráðherra miðar við í tengslum við þetta frumvarp. Þetta eitt nægir til að komast að þeirri niðurstöðu að ekkert er að marka það sem í þessu frumvarpi segir. Jú, auðvitað er eitthvað að marka það, en meginlínurnar sem þar eru lagðar standast ekki. Ég held því fram að það sé viðbúið að reikningsdæmið sem liggur fyrir gangi aldrei upp.

Það eru auðvitað mörg atriði sem maður vildi ræða í tengslum við fjárlagafrumvarpið og efnahagsmálin almennt. Það sem skortir í alla stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum er viljaleysi hennar hvað varðar framkvæmdir og framleiðslu í landinu. Það er alveg ljóst að hagkerfinu verður ekki komið af stað og í gang fyrr en við nýtum þau tækifæri sem landið okkar býður upp á til atvinnuuppbyggingar. Það er það sem fólkið í landinu talar um og óskar eftir. Fólk þarf að hafa vinnu til að geta greitt af lánunum sínum og geta veitt sjálfu sér og fjölskyldum sínum lífskjör sem við viljum að fólk búi við í landinu.

Í stað þess að ýta undir framleiðslu og framleiðni í landinu með því að fara í þær aðgerðir sem við sjálfstæðismenn höfum margoft barist fyrir og ítrekað lagt fram hér á þinginu, eins og Helguvíkurverkefnið, álver á Bakka, virkjun í Neðri-Þjórsá, Búðarhálsvirkjun, verkefni suður á Keflavíkurflugvelli o.s.frv., eru öll þessi verkefni til atvinnuuppbyggingar fyrir þá 15–20 þúsund einstaklinga sem eru atvinnulausir eða verða atvinnulausir ef ekkert verður að gert á næstu árum þá er farin hin leiðin. Farin er sú leið að stöðva verklegar framkvæmdir, draga úr þeim eða bregða fæti fyrir þá sem vilja gera eitthvað í landinu og farið í að hegna þeim sem fyrir eru með skattlagningu, með því að skattleggja atvinnulífið og heimilin í landinu.

Góður maður sagði eitt sinn í umræðu um skattamál að það væri skynsamlegra og betra að taka lítið af miklu en mikið af engu. Það er akkúrat það sem núverandi ríkisstjórn ætlar að gera. Hún ætlar að leggja háa skatta á það sem fyrir er þar til ekkert er eftir, þar til ekkert verður til skiptanna til að standa undir þeirri þjónustu sem ríkið þarf að standa undir. Þessi ríkisstjórn er að kæfa og drepa allt atvinnulíf í landinu. Á því verður að verða breyting.

Ég veit að hæstv. ráðherra þarf að skera niður í ríkisbúskapnum og ég styð það. Ég held að fólk sé almennt reiðubúið í niðurskurð. Ég held að venjulegt fólk sé reiðubúið til að taka á sig alls kyns högg hvað varðar þjónustu ríkisins ef það fær að halda heimilum sínum og er öruggt þrátt fyrir að hafa ekki jafnmikið umleikis og áður. Slíkt öryggi getur ríkisstjórnin ekki boðið upp á. Við höfum orðið vitni að því í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem því er lýst yfir að ekki verði farið í frekari frystingar á lánum fólks sem er í skuldavandræðum og enn síður verði ráðist í almennar aðgerðir gagnvart skuldugum heimilum. Það eru auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir það fólk í landinu sem á um sárt að binda.

Eins og farið hefur verið yfir, virðulegi forseti, teljum við sjálfstæðismenn að þrátt fyrir að eðlilegt sé að skera niður sé forgangsröðin í niðurskurðinum röng. Mikið hefur verið talað um heilbrigðismálin. Við heyrum víðs vegar íbúa af öllu landinu mótmæla þeim niðurskurðaráformum sem uppi eru og fram koma í fjárlagafrumvarpinu og eru blóðug.

Það eru fleiri málaflokkar sem þurfa að þola niðurskurð. Þegar Finnar gengu í gegnum sína kreppu ákváðu þeir að forgangsraða í þágu menntunar. Fyrir því höfum við sjálfstæðismenn talað. Þó að menn grípi til niðurskurðar verða þeir að forgangsraða þannig að þrátt fyrir niðurskurðinn byggi menn upp til framtíðar. Þess vegna hefði ég viljað sjá hæstv. ráðherra fara nánar yfir þær tillögur sem snúa að niðurskurði í menntamálum og reyna að hlífa því kerfi.

Það er líka athyglisvert hvernig komið er fram við ungt fólk í fjárlagafrumvarpinu. Þá á ég ekki bara við skerðingu á barnabótum sem eins og kunnugt er kemur langverst niður á því fólki sem lægstar hefur tekjurnar. Það verður fyrir mestu skerðingunni. Mig langar nefnilega að nefna fæðingarorlofið. Fæðingarorlofið eins og við þekktum það áður er í rauninni að engu orðið. Það er búið að skerða það verulega, það er búið að skera það svo við nögl að maður veltir því fyrir sér hvort ekki hefði verið heiðarlegra af hæstv. fjármálaráðherra að leggja bara til að Fæðingarorlofssjóður yrði lagður niður. Í rauninni er staðan á Fæðingarorlofssjóði orðin þannig að fólk hefur ekki lengur efni á því að taka fæðingarorlof, eins sárt og það er. Það þekki ég t.d., nýbakaður faðir, að það er ekki eftirsóknarvert fyrir fjölskyldur peningalega séð að fara þá leið, svo að ég tali nú ekki um stöðu einstæðra mæðra sem þurfa að treysta á greiðslur úr sjóðnum. Ég held að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort þeir séu á réttri leið að því leyti og öðru sem ég hef nefnt og mun eflaust ræða nánar í (Forseti hringir.) frekari ræðum um þetta fjárlagafrumvarp.