139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka traustið að gefa mér tvær mínútur til að útskýra hvernig við eigum að ná þessari hagræðingu á öllu landinu. Ég held að það sé ofætlun og ég muni því miður ekki geta svarað því þannig. Ég skal reyna að svara því sem hefur nú komið fram. Ég þakka fyrir að útskýrt var að ekki ætti að leggja niður heilbrigðisþjónustu, aðeins í þeirri mynd sem hún hefur verið. Það segir sig sjálft að þegar við skerum niður 4,8 milljarða kr. í heilbrigðisþjónustu af 97, verður þjónustan ekki óbreytt yfir landið allt. Þannig er það, svo það sé nú sagt.

Varðandi samráðið kallaði ég til allar heilbrigðisstofnanir. Talað hafði verið við heilbrigðisstofnanir á Akureyri og eins Landspítalann um að þessar stofnanir mundu fá á sig minni skerðingu ásamt heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Þeim var því kunnugt um það og vissu þar með hvað var í vændum annars staðar. En ég ætla ekki að fara frekar út í það sem rætt var á þeim fundum enda var ég ekki á þeim.

Ég kallaði til fulltrúa frá öllum þessum heilbrigðisstofnunum eins fljótt og ég var búinn að setja mig inn í málin og gerði þeim grein fyrir hvaða reglum væri unnið eftir. Ég áskildi mér þar með rétt, og hef gert það formlega og það hefur komið fram hér áður, til að fara yfir þetta og endurskoða eftir þeim upplýsingum sem ég fæ eftir þá yfirferð.

Varðandi skurðstofurnar á Suðurnesjum get ég upplýst að ég hefði verið alveg til í að skoða þann möguleika að nýju. Þar er verið að undirbúa byggingu á nýju sjúkrahúsi og ég held að það væri nú vit ef menn á Suðurnesjum færu a.m.k. yfir það og skoðuðu þau framkvæmdaáform sem uppi eru á Keflavíkurflugvelli þar sem er verið að breyta sjúkrahúsi í dótturfélag í Kadeco. Sú vinna er hafin og okkur sem voru í fjárlaganefnd var kunnugt um það. Það er ekki okkar að stoppa það en aftur á móti getur Alþingi gert það. Ég tel eðlilegra að nýta skurðstofurnar á spítalanum á Suðurnesjum og hef tjáð mig um það.

Varðandi önnur atriði sem komu fram í ræðunni og eru mjög athyglisverð og þarf að ræða er hvernig greiðsluþátttaka sjúklinga er. Hún er afar mismunandi og tilviljunarkennd. Þar er fyrst og fremst verið að vinna með lyfjakostnaðinn í augnablikinu og búa til eitthvert kerfi í kringum það til að verja fólk gegn því að vera með himinháan lyfjakostnað (Forseti hringir.) og jafna honum á þá sem nota miklu minna af lyfjum. Vonandi komum við því í gang strax í upphafi næsta árs.