139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í þeirri stuttu ræðu sem ég held hér ætla ég ekki að fara í alla þætti fjárlagafrumvarpsins. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þeim forsendum sem liggja til grundvallar frumvarpinu og þeirri áráttu ríkisstjórnarinnar að gera hvað hún getur til að koma í veg fyrir atvinnusköpun. Það mun gera okkur þetta verkefni enn erfiðara en raun ber vitni. Ég hef rætt það úr þessum stól, Reykjanesið er kannski skýrt dæmi þar um. Þrátt fyrir að orð hæstv. fjármálaráðherra hafi verið mildilegri í umræðu hér um daginn en oft áður í tengslum við það svæði, sem gefur okkur von um að menn séu að sjá að sér, er ekkert fast í hendi hvað það varðar.

Ég ætla hins vegar, og það kemur kannski ekki neinum á óvart, að ræða sérstaklega heilbrigðismálin í frumvarpinu. Af því að hæstv. fjármálaráðherra er hér held ég að það væri ágætt að lesa úr viðtali við hann þegar hann var í stjórnarandstöðu og menn fóru af stað með þetta erfiða verkefni sem öllum var ljóst í október 2008 að yrði að leysa. Það var öllum ljóst, hverjum einasta stjórnmálamanni, hverjum einasta landsmanni, að spara þyrfti í ríkisfjármálum. Ég var þá heilbrigðisráðherra og fór í það verkefni og kallaði saman allt það besta fólk sem hægt var að ná í með skömmum fyrirvara. Það fólk vann mikið verk sem hafði það að markmiði að halda úti þjónustu með minni fjármunum. Þá sagði, virðulegi forseti, núverandi hæstv. fjármálaráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið:

„Ég held að það sé alveg augljóst mál að ef heilbrigðisráðuneytið kæmi í okkar hendur yrði eitt af því fyrsta sem ráðherra þar yrði líklegur til að gera að endurskoða það …“ — þ.e. þær tillögur sem þáverandi ríkisstjórn var með — „einfaldlega vegna þess að þær breytingar voru unnar svo ákaflega flausturslega, ætlaðar allt of skammur tími til að hrinda þeim í framkvæmd án samráðs við fagfólk. Þannig að þó ekki væri nema til þess að gefa eðlilegar kringumstæður í því máli væri nú, held ég, skynsamlegt að byrja á því að fresta gildistöku þeirra og skoða breyttar áherslur á því sviði sem eru fullt eins vænlegar. Því að flestir sem ég hef hitt hafa nú reiknað með því að skipulagsbreytingar heilbrigðisráðherra mundu kosta peninga á þessu ári en ekki spara þá.“

Virðulegi forseti. Þetta var tónninn sem var gefinn og þegar hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, var sestur í ráðherrastólinn og einnig félagi hans í hinni fylkingunni í Vinstri grænum, þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, fóru menn um landið og lofuðu því að ekki yrði nokkur skapaður hlutur gerður og menn þyrftu nú ekki að hafa áhyggjur af þessum niðurskurði eða að það þyrfti að taka á þessum málum. Menn ákváðu með öðrum orðum að fresta vandanum. Nú sitjum við uppi með efndirnar hjá Vinstri grænum þegar kemur að heilbrigðismálum.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að gera neitt annað en að reyna að hjálpa ríkisstjórninni og þeim sem vinna það erfiða verkefni til að ná sem bestri niðurstöðu. Það er það sem ég ætla að gera. Ég held hins vegar að það sé hollt og gott fyrir aðila að rifja þetta aðeins upp því að þetta er skólabókardæmi um populisma sem á sér enga innstæðu. Því miður blésu menn af alla þá undirbúningsvinnu sem búið var að vinna. Menn frestuðu nokkurn veginn öllum aðgerðum ef sameining á Vesturlandi er undan skilin. Að vísu tóku menn engar ákvarðanir til baka sem teknar höfðu verið í minni tíð. Þó að menn hafi mótmælt því á sínum tíma held ég að þeir finni hve gott er að hafa t.d. faglega stjórn á Landspítalanum. Því var ekki vel tekið í þessum sal þegar farið var út í þær aðgerðir að koma faglegri stjórn almennt á heilbrigðisstofnanir í landinu.

Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra leiðrétti mig ef ég hef misskilið hann en mér fannst heyrast nýr tónn hjá hæstv. heilbrigðisráðherra þegar kom að því að nýta þá aðstöðu, þá glænýju aðstöðu, sem er ónotuð eins og t.d. á Reykjanesi og var búið að gefa heimild til að leigja út til að skapa gjaldeyristekjur, en fyrirmaður núverandi heilbrigðisráðherra, eftirmaður minn, stöðvaði. Hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir það að þess í stað er verið að byggja nýjan spítala við hliðina á glænýja spítalanum sem er ónotaður á Reykjanesi. Við sitjum þá uppi með tvo glænýja spítala á Reykjanesi hlið við hlið, annar ónotaður, hinn væntanlega í nýtingu. Nú getur hver og einn dæmt um það hvort þetta sé skynsamleg ráðstöfun fjármuna.

Virðulegi forseti. Þegar ég fór frá þessu verki voru verkefnisstjórnir um allt land að vinna með fólki sem best þekkti til sem var starfandi í viðkomandi stofnun. Ég ætla aðeins að fara hér yfir það hvað þetta var.

Þetta var vinnuhópur um skurðstofur. Þetta var vinnuhópur um flutning meltinga- og lyflækningadeildar St. Jósefsspítala, vinnuhópur um öldrunarlækningar í Hafnarfirði, vinnuhópur um fæðingarþjónustu á Suðurlandi og Suðurnesjum og stuðningshópur ráðuneytisins. Á Norðurlandi var vinnuhópur um heilsugæslu, vinnuhópur um skipulag sérhæfðra þjónustu- og hjúkrunardeilda, vinnuhópur um sjúkraflutninga, vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu, vinnuhópur um stoðdeildaþjónustu. Á Suðurlandi var vinnuhópur um heilsugæslu, vinnuhópur um sérhæfða starfsemi sjúkradeilda, vinnuhópur um sjúkraflutninga, röntgen-, rannsókna- og stoðdeilda. Á Vesturlandi var vinnuhópur um sjúkraflutninga, vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu, vinnuhópur um heilsugæslu, vinnuhópur um sérhæfða þjónustu sjúkra- og hjúkrunardeilda. Hópavinna á Vestfjörðum var ekki farin á stað vegna þess að veðurfar var þannig að ekki var hægt að koma saman fundum, en það var í undirbúningi.

Ég er með örlítið af niðurstöðum hér í skýrslum sem allar voru unnar af fólki sem var að vinna á viðkomandi stað, af fólki sem var að vinna á viðkomandi stofnunum.

Virðulegi forseti. Við tölum um mikilvægi þess að vinna saman. Menn nefna það iðulega varðandi virðingu Alþingis að við eigum að láta dægurþras og ríg þagna og vinna saman að einhverju sem við erum öll sammála um. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann viti, því að ekki ber hann ábyrgð á því, nýtekinn við — því miður fór ríkisstjórnin í það, virðulegi forseti, einhverra hluta vegna að sameina tvö erfiðustu velferðarráðuneytin í eitt við þær aðstæður sem uppi eru. Guð einn veit af hverju það var gert. En ég vil spyrja — því að nú var það ekki ég sem var að semja þetta, þetta er ekki flokksályktun Sjálfstæðisflokksins, þetta er fagfólkið á viðkomandi stöðum sem var að vinna að því, fyrir tveimur árum tæplega, að ná hagræðingu á þessum svæðum, halda uppi þjónustunni á þessum svæðum, því það vissu allir að það yrðu minni fjármunir — af hverju þessu var öllu hætt? Af hverju fólkið var bara sent heim og sagt að hætta að vinna að þessu?

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra — vegna þess að hann hefur lýst því yfir að hann hafi áhuga á að taka á hinu mikla böli sem við lögðum mikla vinnu í að vinna gegn, þ.e. offitu og hreyfingarleysi, sérstaklega hjá ungmennum — hvað hafi orðið um heilsustefnuna sem búið var að vinna að í tæplega tvö ár og tugir ef ekki hundruð manna komu að, allt sérfræðingar. Af hverju var hún bara sett einhvers staðar neðst niður í skúffu?

Ég get nefnt fleira, virðulegi forseti, en í þessu fjárlagafrumvarpi horfum við fram á að ekkert samráð hefur verið haft við stjórnendur þessara stofnana sem eiga að fara með þetta. Þetta kemur gersamlega á óvart því að þeir eru búnir að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra og helstu forustumenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fara yfir það að þeir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Og nú fá þeir þetta fjárlagafrumvarp. Ég er búinn að lesa það og skoða og þykist þekkja málaflokkinn ágætlega og ég átta mig ekki á því hvernig á að framkvæma þetta, hvernig menn ætla að fara í þessa hluti.

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra mundi upplýsa okkur um það í andsvari af hverju menn hættu þessari vinnu allri saman sem er augljóslega nauðsynlegt að vinna? (Forseti hringir.)