139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:35]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki svarað nákvæmlega af hverju þeirri vinnu sem hv. þingmaður vitnar í hafi verið hætt. Það var löngu fyrir minn tíma. Aftur á móti staðfestist það með ágætri ræðu hv. þingmanns að öllum mátti vera ljóst að hér yrði að fara í breytingar og hagræðingu. Það hafði einmitt verið unnið að því að skipta landinu upp í heilbrigðissvæði. Þar hafa menn verið í samstarfi innan svæðanna og þeim aðilum hefur öllum mátt vera ljóst að um yrði að ræða verulega hagræðingu. Þó ætla ég ekki að draga dul á það að margir áttu þó von á því að hún yrði hóflegri á ákveðnum svæðum og þess vegna höfum við auðvitað áskilið okkur rétt til þess að fara yfir það og skoða það betur.

Full ástæða er til að þessi vinna haldi áfram og það verði einmitt mótuð áfram sú stefna að reyna að skilgreina betur og ljúka þeirri vinnu hvaða þjónusta eigi að vera á hverju svæði, hversu langt eigi að vera í hana, innan hvers tíma eigi að vera hægt að veita þá þjónustu og hvaða þjónustu verði að veita miðlægt. Þetta er auðvitað það sem er verið að fást við og er í raun byggt á grunni sem kemur frá eldri heilbrigðisráðherrum. Ég þakka þau orð fyrrverandi heilbrigðisráðherra að hann bjóði fram aðstoð sína við þá vinnu sem fram undan er.

Hv. þingmaður nefnir skýrslu sem gerð var af honum um offitu og hreyfingu. Hún er ekki lengur ofan í skúffu, heldur hef ég dregið hana fram. Það er stutt síðan ég var á mjög ánægjulegum viðburði í Flensborg þar sem verið var að vinna með heilsueflandi framhaldsskóla og ég skrifaði undir áframhaldandi samning um verkefni sem hófst einmitt árið 2007. Þar var líka verið að skrifa undir HOFF-verkefnið, heilbrigði og forvarnir í framhaldsskólum, sem er afar mikilvægt verk og akkúrat í þeim anda og frá viðkomandi hv. þingmanni, (Forseti hringir.) þannig að engin hætta er á því að þessar skúffur séu lokaðar. Menn eiga auðvitað að hvetja okkur til dáða í því að vinna í forvörnunum áfram, eins og mikilvægt er á öllu landinu.