139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið sem ber nafn með rentu, hrunfjárlögin, en þar koma fram með alvarlegustum hætti afleiðingar af kreppunni og er kannski við hæfi að við ræðum þetta nú á tveggja ára afmæli neyðarlaganna, þar sem við teljum kreppuna hafa hafist á þeim degi, þótt kannski hafi hún hafist dálítið fyrr.

Mig langar kannski, virðulegi forseti, áður en ég fer í frumvarpið sjálft að fjalla dálítið um inngang svokallaðrar skýrslu um efnahagsstefnu eða þjóðhagsáætlun 2011 sem var lögð fram af efnahags- og viðskiptaráðherra 4. október samhliða því sem er grunnplagg í fjárlagagerðinni. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Við breytingar á skipan Stjórnarráðsins 1. október 2009 var hagspárgerð fyrir forsendur fjárlagafrumvarpsins flutt frá fjármálaráðuneytinu til sérstakrar skrifstofu á vegum Hagstofunnar. Afleiðing þessa fyrirkomulags er m.a. sú að ekki liggur fyrir ný þjóðhagsspá að hausti heldur miðast fjárlagafrumvarpið við hagspá sem unnin var í júní.“

Forsendur eru þess vegna allar í raun og veru að miklu leyti brostnar eða alla vega að talsverðu leyti og tillögur kannski þar af leiðandi. Ég veit að hér hefur aðeins farið fram umræða um það og heyrði ég í hæstv. fjármálaráðherra með hvaða hætti þetta ætti að vera til framtíðar og vildi minna á það hér að við sem sátum í þingmannanefndinni lögðum til að nýrri þjóðhagsstofnun eða sambærilegri stofnun yrði falið þetta verkefni. Æskilegt væri að við skoðuðum það til framtíðar þótt kannski sé nú sérkennilegt að ræða um nýjar ríkisstofnanir á tímum þessa mikla niðurskurðar. En það hefur nú svo sem ýmislegt verið sett á laggirnar og verið meiningin að setja á laggirnar hér af ríkisstjórninni. Má þá nefna Bankasýsluna, Fjölmiðlastofu, svo fátt eitt sé nefnt.

Í innganginum að þessari efnahagsskýrslu er m.a. sagt að unnið sé að því að endurbyggja stöndugt fjármálakerfi með fjármögnun fjármálastofnana sem geta sinnt þörfum íslenskra heimila og fyrirtækja. Í því sambandi er kannski rétt að minnast á það hvort bankakerfið og fjármálakerfið séu ekki enn of stór, við hefðum frekar átt að miða stærð þeirra við innlán og þörf á innlendum markaði en þau útlán sem fyrir voru og við þurfum kannski að eiga eitthvað við það verkefni.

Í öðru lagi er sagt að verið sé að tryggja fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og hins opinbera til framtíðar með ýmsum hætti, betri skuldastýringu o.s.frv.

Í þriðja lagi hefur peningastefnan verið nýtt til að tryggja stöðugleika krónunnar. Er þá rétt að minnast þess að verulegur árangur hefur náðst í styrkingu krónunnar. Ég veit ekki hvort við getum þakkað ríkisstjórninni það, en gjaldeyrishöftin spila þar auðvitað stóra rullu. Staða krónunnar í samkeppni, eins veik og hún nú er, styrkir auðvitað útflutningsgreinarnar. Við munum kannski á næstu mánuðum, árum, jafnvel áratugum, búa við það að krónan verði mun veikari en hún var þegar hún var sem sterkust, enda var hún orðin allt of sterk og við munum væntanlega geta byggt upp atvinnulíf okkar á þeim útflutningsgreinum sem við þurfum að nýta. Það þyrfti kannski að setja meiri kraft í það.

Í fjórða lagi er fjallað um það að tryggja aðlögun skulda fyrirtækja og heimila. Þar er fjallað um að flöt niðurfelling skulda sé ekki skynsamleg. Síðar í því plaggi kemur líka fram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að aðlögun skulda heimila sé mikilvæg er ljóst að flöt niðurfærsla skulda er ekki skynsamleg leið til þess að bæta fjárhagsstöðu almennings. Annars vegar vegna þess að langstærstur hluti skulda almennings er í eigu ríkissjóðs í gegnum Íbúðalánasjóð en lækkun á eignum Íbúðalánasjóðs þyrfti að fjármagna með eiginfjárframlagi ríkissjóðs.“

Hér er stöðugt haldið áfram því tali ríkisstjórnarinnar að neita í raun og veru að taka þátt í einhverjum almennum aðgerðum til þess að koma skuldsettum heimilum og fyrirtækjum til aðstoðar. Ef við líkjum því við að verið sé að reka fólk fram af bjargbrún, þá er kerfi ríkisstjórnarinnar það að reyna að tryggja að einhver grípi þá sem falla og treysta því að þeir verði ekki of margir í einu. En því miður hefur það gerst að allt of margir falla og kerfið grípur þá ekki alla. Við, sem höfum aðhyllst það að menn færu í einhverjar almennar aðgerðir, höfum hins vegar reynt að snúa því þannig að hópnum verði snúið frá bjargbrúninni til að færri detti þar fram af.

Við þessa umræðu hefur ríkisstjórnin því miður þverskallast við að ræða við okkur um það sem ég held nú reyndar að sé að verða þverpólitískt í öllum flokkum. Ég held að þeir stjórnarþingmenn sem hafa viljað fara þá leið að fara í einhverjar almennar aðgerðir þurfi að hunsa ráðherra sína og við verðum að setjast hér niður og reyna að finna þær leiðir sem eru færar.

Auðvitað eru margar almennar aðgerðir færar sem við gætum tekið hér upp og rætt um. Við gætum t.d. sett þak á verðbólguna. Við gætum velt fyrir okkur að setjast yfir allar þær leiðir sem menn hafa nefnt, t.d. hvort hægt sé að kaupa upp þær skuldir sem verða ógreiðanlegar og setja í sérstakan sjóð – það er vissulega félagsleg aðgerð – og taka þær þannig út úr kerfinu, þá erum við að tala um lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð.

Alla vega þyrftum við að tryggja að þær afskriftir sem bankarnir fengu sannanlega á sínum tíma gangi til lántakendanna en safnist ekki upp sem verulegur hagnaður hjá bönkunum. Við getum auðvitað nefnt það og minnst þess hér að við sex mánaða uppgjör stóru bankanna þriggja skiluðu þeir um 27 milljörðum í hagnað, sem liggur fyrst og fremst í því að þær afskriftir sem þeir fengu við það að flytja lánin úr gömlu bönkunum í nýja eru taldar þeim til tekna og hagnaðar vegna þess að þeir færa ekki hagnaðinn til raunverulegra eigenda afskriftanna. Þetta var gert með almennum hætti, ekki var hvert lán tekið fyrir sig heldur stabbinn í heilu lagi, svo það sé nú minnst á það hér.

Það hefur líka talsvert verið rætt um og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur orðið fyrir talsverðri gagnrýni vegna þess að ekki á að skera mikið niður í hans eigin heimabæ og kjördæmi, en víðast hvar annars staðar á landsbyggðinni er skorið mjög gróflega og gengið nokkur gróflega til verks. Hæstv. ráðherra hefur réttilega sagt frá því að hann hafi nýlega verið kominn inn í ráðuneytið þegar þetta lá allt fyrir, en hins vegar hefur farið minna fyrir því að hæstv. ráðherra var jú formaður fjárlaganefndar og formaður og varaformaður fjárlaganefndar ásamt fulltrúum ríkisstofnana voru í svokallaðri ríkisfjármálanefnd og undirbjuggu þessi fjárlög. Þar hefur hæstv. ráðherra væntanlega komið nokkuð að máli og gæti því trúlega svarað fyrir sumt af því sem hér kemur fram þótt hann hafi ekki verið ráðherra heilbrigðismála á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er auðvitað, eins og við höfum margoft rætt, bæði við framsóknarmenn allir, ég hér í stól, og margir aðrir þingmenn, að auka tekjurnar. Það er því sláandi og sérkennilegt að velta því fyrir sér að menn átta sig ekki á því að öll mál eru atvinnumál, ég átti orðastað við hæstv. umhverfisráðherra fyrr í dag og þegar menn leggja steina í götu framkvæmda og uppbyggingar, t.d. með því að tefja afgreiðslu skipulagsmála, þá eru menn að koma í veg fyrir uppbyggingu atvinnumála og auknar tekjur.

Virðulegi forseti. Ég býst við að ég eigi að hafa lengri tíma þar sem þetta er fyrsta ræða mín í þessari umferð, en ég held að 10 mínútur séu liðnar.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Það eru einungis 10 mínútur til ráðstöfunar á hvern þingmann.)

Til ráðstöfunar? Þá hef ég misskilið það. Ég mun geyma frekari umræðu til seinni tíma, en ætlaði hér auðvitað að fjalla um þann geigvænlega niðurskurð sem er áætlaður í heilbrigðisgeiranum, ekki síst á landsbyggðinni, og þá aðför sem ég tel að þar sé verið að gera að þekkingu (Forseti hringir.) og nærþjónustu á landsbyggðinni, en ég mun geyma umræðu um það til seinni tíma.