139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Það er þarft og skylt að við ræðum aðeins um skattamál og það hefði verið gott við hentugt tækifæri að fá rýmri tíma til þess að fara yfir þau mál og segja frá þeirri vinnu sem þar er í gangi.

Hv. þingmaður spyr hverjar séu skattaáherslur ríkisstjórnarinnar og það er kærkomið að fara yfir það. Í fyrsta lagi má vitna í samstarfsyfirlýsingu flokkanna þar sem meginleiðarljós eru lögð upp í kafla þar um ríkisfjármál. Þar er að sjálfsögðu gengið út frá því lykilatriði sem við vorum að ræða varðandi fjárlög, að það er mikill lykill að endurreisn íslensks efnahagslífs að ráðast í víðtækar aðgerðir á sviði ríkisfjármála til að vinna bug á hallarekstri ríkissjóðs og koma þeim hlutum aftur í jafnvægi. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin styðst við blandaða leið tekjuöflunar og sparnaðar og að því marki sem að tekjuöfluninni snýr er lögð áhersla á að skattheimta leggist á þá sem betur eru í stakk búnir til að taka á sig auknar byrðar en, eins og segir í textanum, með leyfi forseta:

„verði þó ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem fram undan eru. Áfram verði unnið markvisst að því starfi sem hófst með samstarfi stjórnarflokkanna að koma í veg fyrir skattaundandrátt.“

Ég tel að farið sé að þessu í öllum greinum. Settur var af stað starfshópur strax að loknum fyrstu skattbreytingunum sem urðu á miðju ári 2009 og í árslok þess árs til að fara í víðtæka endurskoðun og kortlagningu á skattkerfinu í heild. Sá hópur hefur nú skilað áfangaskýrslu eins og gert var ráð fyrir og við hana var stuðst í lokafrágangi skattatillagna í fjárlagafrumvarpið en það starf mun halda áfram. Með verkefnisstjórninni eða starfshópnum sjálfum starfar breiður samráðshópur með fulltrúum þingflokka og aðilum vinnumarkaðarins. Í þessari skýrslu, sem ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér, má lesa um verkefnið sem þar er undir. Þar er ítarlegt erindisbréf þar sem hópnum er falið að fara rækilega yfir skattkerfið í heild, horfa til framtíðar og taka mið af ráðgjöf og skýrslum frá öðrum aðilum eins og OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvernig þessi mál hafa þróast annars staðar á Norðurlöndunum o.s.frv.

Um skattkerfisbreytingarnar sem urðu hér í tveimur áföngum á árinu 2009 hvet ég menn til að styðjast enn við fyrra hefti fjárlagafrumvarpsins. Þar er farið yfir þær allar í rækilegu máli á bls. 35–39 og raktar lið fyrir lið þær skattkerfisbreytingarnar sem gerðar hafa verið, þar á meðal upptaka nýrra skatta á sviði umhverfis- og auðlindamála, upptaka auðlegðarskatts og gjaldskrárhækkanir almennt og annað í þeim dúr.

Það er rækilega fram komið að hlutföll tekjuöflunar annars vegar og sparnaðar og niðurskurðaraðgerða hins vegar hafa heldur þróast í þá veru að meiri þungi aðgerðanna er á gjaldahlið en tekjuhlið en lagt var upp með. Menn settu sér viðmið um að það yrði innan 45–55% marka en frá og með árinu 2011, gangi fjárlagafrumvarpið í grófum dráttum eftir með þeim samdrætti ríkisútgjalda og þeirri takmörkuðu tekjuöflun sem þar er að finna, verða þessi hlutföll orðin verulega skekkt á gjaldahliðina, þ.e. það lætur þá nærri að a.m.k. tveir þriðju og jafnvel nær þrem fjórðu aðgerðanna verði þá komnir fram á þeirri hlið.

Staðreyndin er sú, eins og gögn sýna, að þær skattkerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í, í tveimur áföngum fram að þessu, og það takmarkaða sem gert verður á næsta ári dugar rétt til að halda skatttekjum óbreyttu hlutfalli af vergri landsframleiðslu, tæp 26%.

Þær takmörkuðu aðgerðir sem ráðast á í á næsta ári eru sömuleiðis listaðar upp og fór ég yfir þær í framsögu minni. Þar er um að ræða hækkun á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti lögaðila. Þar er um að ræða hækkun á erfðafjárskatti, hækkun á auðlegðarskatti, breytingar á áfengis- og tóbaksgjaldi, nokkra hækkun á kolefnisgjaldi, smávægilegar breytingar á bifreiðagjöldum í tekjuáhrifum mælt en meiri kerfisbreytingar sem miða að því að færa andlag skattlagningarinnar yfir í losun og loks áform um gjald á fjármálastofnanir, svonefndan bankaskatt. Verðlagsáhrif þessara breytinga eru hverfandi og heildarsamsetning þessara aðgerða þegar þær verða allar fram komnar teikna sig klárlega þannig að þungi aðgerðanna er á gjaldahlið.

Að lokum vil ég nefna að niðurstöður úr álagningu skattsins nú í sumar sýna með óhrekjandi hætti að markmið ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) um réttlátari dreifingu skattbyrðinnar í tekjuskatti náðu fram að ganga, lágtekjufólki var hlíft við skattlagningu og skattbyrðarnar voru færðar upp á efri enda launastigans.