139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að taka upp þessa umræðu. Það er eðlilegt og þarft að spyrja hvort það sé ekki röng leið í kreppu að hækka skatta. Auðvitað er það til þess fallið að draga úr eftirspurn en hér er ekki margra góðra kosta völ, því að á góðærisárunum lögðum við ekki fé til hliðar, héldum við ekki sköttunum uppi heldur lækkuðum þá og eigum þess vegna ekki í þann forða að grípa til nú í erfiðleikum okkar. (TÞH: Hvað með 170 milljarðana sem nú er verið að nota?) Það sem mestu máli skiptir í þessum erfiðustu fjárlögum allra tíma er hins vegar að í þeim er almennum tekjuskatti hlíft og verðlagsáhrif skattbreytinga á næsta ári eru í algjöru lágmarki. Þannig er bæði launaumslagi fólks og lánum þess hlíft á næsta ári og þess er sannarlega þörf vegna þess að í skattaaðgerðunum á síðasta ári voru skattar hækkaðir á almenning. Við verðum um leið að minnast þess að þær hækkanir voru í raun ekki annað en afturköllun á lækkunum allra síðustu ára, óraunsæjum skattalækkunum sem við vildum gjarnan ráðast í en höfðum bara því miður ekki efni á. Þeir skattar sem við núna búum við eru í aðalatriðum þeir skattar sem voru hér í landinu áður en Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn réðust í óraunsæjar skattalækkanir á góðæristímum sem óhjákvæmilegt var að kalla aftur.

Það er ánægjuefni að þrátt fyrir þá hækkun sem hér varð á prósentum og þrátt fyrir hrakspár stjórnarandstöðunnar, hafa á þessu ári lengst framan af skattstofnarnir (Forseti hringir.) sjálfir haldist og tekjurnar að skila sér til ríkissjóðs. (TÞH: Hvernig stendur á því að ...?)