139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem tekur mið af ýmsu. Hún byggir hins vegar á þeirri staðreynd að ríkisstjórnin hefur kosið að velta kostnaðinum af bankahruninu yfir á almenning í landinu og gerir það með þeim hætti að hækka skatta og skera niður þjónustu. Við svoleiðis hrun sem átti sér stað hér hefði að okkar mati í Hreyfingunni þurft að hugsa málin róttækt upp á nýtt. Það gerðum við og lögðum fram þá hugmynd að þeir sem bera ábyrgð á þessu hruni verði einfaldlega látnir borga það og að hér hefði verið sett í gang róttæk löggjöf þar sem ríkisstjórnin í öllu sínu veldi hefði leitast einarðlega við það að ná þessum peningum aftur af þeim sem bera ábyrgð á hruninu. Stór hluti þessa fólks á eignir um allt land og í útlöndum. Okkur finnst alveg fráleitt að í stað þess að gera nokkuð til að reyna að nálgast þær eignir sé þessu bara velt yfir á almenning með hærri sköttum og niðurskurði. Þetta eru fordæmalausar aðstæður og þær kalla á fordæmalausar aðgerðir. Það er einfaldlega þannig. Og að því leytinu til höfnum við alfarið þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur nú verið framkvæmd tvö ár í röð.

Annað sem ég vildi tæpa á sem ég tel mjög mikilvægt og þarf að koma að þótt tíminn sé naumur er hugmynd ríkisstjórnarinnar um það sem hún kallar auðlindaskatta. Það sem ríkisstjórnin kallar auðlindaskatta eru neysluskattar. Auðlindaskattar eru skattar á þá auðlind sem verið er að nýta og eiga að skila arði til þjóðarinnar. Hér hefur ríkisstjórn og fjármálaráðherra Vinstri grænna snúið hugtakinu auðlindaskattur upp í neysluskatt þar sem menn borga fyrir heita vatnið sem þeir nota úr krananum í baðherberginu heima hjá sér. Með sama hætti mætti leggja auðlindaskatt á fiskbollurnar í fiskbúðinni og kalla það skatt á kvóta. Þetta eru öfugmæli og þetta er röng nálgun. (Forseti hringir.) Þessu þarf að breyta.