139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er því miður þannig að afleiðingar kreppunnar þýða að þessar hlutfallstölur sem hv. málshefjandi nefndi hafa lækkað. M.a. vegna þess að stórir skattgreiðendur sem héldu uppi tekjunum eins og bankar, ofþanin mannvirkjagerð, fasteignamarkaður og annað í þeim dúr eru horfnir. Ég kom því ekki að í fyrri ræðu minni að eitt af því fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði í skattamálum var að fara í kerfisbreytingar á því sviði. Við gerðum landið allt að einu skattumdæmi til stórkostlegs hagræðis og hefur sú breyting gengið vel. Við erum sömuleiðis að stórefla bæði skattrannsóknir og skatteftirlit. Það er eitt af örfáum sviðum þar sem ríkið leggur til aukna fjármuni milli ára.

Að sjálfsögðu viljum við öll hvetja til hagvaxtar og verðmætasköpunar. Ef við ættum frjálst val í þessum efnum mundum við örugglega fara aðrar leiðir en við neyðumst til að gera vegna þeirra aðstæðna sem við búum við. Engu að síður er það nú svo að þessi ríkisstjórn hefur hrint í framkvæmd ívilnunum til að hvetja til nýsköpunar sem fyrri ríkisstjórn gerði ekki. Var þó búið að ræða um það í mörg ár. Það var þessi ríkisstjórn sem setti lög um skattaívilnanir í þágu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Það var þessi ríkisstjórn sem setti almenn rammalög um skattaívilnanir til stærri fjárfestinga þannig að ekki þurfi að klæðskerasauma fjárfestingarsamning utan um hvert stórt verkefni sem kom til landsins.

Það er ekki hægt að halda því fram að þær takmörkuðu breytingar sem hafa orðið á skatthlutföllum eyðileggi samkeppnisstöðu Íslands í skattalegu tilliti. Eftir sem áður, hv. þingmaður, eru skatthlutföll hér með því lægsta sem gerist, t.d. tekjuskattur af hagnaði af lögaðilum. Þó hann fari úr 18 í 20% er hann áfram með því lægsta sem finnst innan OECD. Það eru fyrst og fremst frændur okkar Írar sem enn sitja eftir með mun lægra hlutfall. En hvað er verið að ræða þar þessa dagana? Að hækka það.

Við höfum lagt auknar skattbyrðar t.d. á þá sem hafa miklar fjármagnstekjur og eiga miklar eignir. Hverjir eru það sem borga? Það eru þeir sem fengu allar innstæður sínar fluttar yfir í nýju bankana við hrunið og fólk sem er svo heppið að komast í gegnum þessar þrengingar með umtalsverðar fjármagnstekjur eða aðrar eignir. Er ekki sanngjarnt (Forseti hringir.) að það leggi aðeins meira af mörkum og við notum þá fjármuni í sameiginlegan sjóð til hinna sem eru í sárastri þörf fyrir þá? (Forseti hringir.)