139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. mál
[16:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að rannsókn á tildrögum þess að Icesave-samkomulagið var gert, það fyrra og reyndar það seinna líka. Ég er meðflutningsmaður á þessu máli. Það er brýnt að þetta sé upplýst til þess að búa til gagnsæi og traust meðal þjóðarinnar eins og margt annað sem hefur verið geymt í þoku og undir mikilli leyndarhyggju.

Málið var að samningarnir voru undirritaðir 5. júní 2009. Ríkisstjórnin afgreiddi málið hratt frá því að samningurinn var gerður og þar til hún hafði samþykkt að fela fjármálaráðherra að skrifa undir samningana. Það er hægt að sýna fram á að tíminn sé frekar talinn í klukkutímum en dögum, hvað þá vikum. Þetta eru mjög viðamiklir og stórir samningar, þeir eru á ensku og falla undir bresk lög. Þess vegna undrar maður sig á því hversu fljót ríkisstjórnin var að átta sig á þessu öllu saman. Að lesa samningana í gegn. Átta sig á því hvernig bresk lög virka sem ég átta mig ekki enn á eftir óskaplega miklar umræður um málið og sjá hvernig þetta kæmi allt saman út fyrir þjóðina.

Þetta sem sagt gerði ríkisstjórnin og sumir hæstv. ráðherrar eru ekki mjög sleipir í ensku. Samningarnir voru ekki þýddir yfir á íslensku. En þarna var tekin ákvörðun af ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum að fela fjármálaráðherra að undirrita þetta. Samt var vitað að innan ríkisstjórnarinnar væri andstaða við samningana, þ.e. þáverandi hæstv. ráðherra, Ögmundur Jónasson. Það var andstaða við samningana hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna. Þessi embættisfærsla er því mjög skrýtin.

Þó að menn hafi ekki talað um það beint, því miður, þá voru Íslendingar beittir kúgun og allt að því viðskiptastríði. Bretar og Hollendingar beittu ýmsum ráðum, öllum mögulegum og ómögulegum, til þess að kúga íslenska þjóð. Því miður hafa íslenskir ráðamenn ekki sagt þetta fyrir utan það sem forsetinn sagði nýverið. Þetta hefðum við náttúrlega átt að segja strax: Við erum beittir kúgun. Þess vegna samþykktum við þingsályktunartillöguna haustið 2008. Hún ber öll merki kúgunar.

Á þeim tíma lýsti ég þessu þannig að mér liði eins og manni sem hittir ræningja úti í skógi um nótt. Sá beindi að manni byssu, maður er ekkert að velta fyrir sér lögum og rétti heldur afhendir honum veskið. Maður er ekkert að velta fyrir sér hvort ræninginn eigi siðferðilegan, móralskan eða lagalegan rétt á því að fá veskið. Maður afhendir bara veskið. Í þessari stöðu var íslensk þjóð á þessum tíma.

Síðar slaknaði á þessari miklu ógn og kúgun. Þegar frá leið sáu margir hugsandi menn og vinir Íslendinga að Íslendingar áttu ekkert að borga þetta. Það var fráleit hugsun. En það voru margir innan lands sem hlíttu þessari kúgun lengi á eftir. Ég man eftir því að eftir að samningurinn var undirritaður myndaðist nýr meiri hluti á Alþingi. Það myndaðist nýr meiri hluti um þetta sérstaka mál. Það voru nokkrir hv. þingmenn frá Vinstri grænum, Ögmundur Jónasson, Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og fleiri ágætir þingmenn sem sáu að þetta var stórhættulegt og mynduðu bandalag við aðra þingmenn um að knýja fram breytingar. Það náðist fram en baráttan var undarleg þar sem við börðumst við ýmsa stjórnarliða. Það var eins og við værum að semja beint við Breta og Hollendinga.

Það sem lá að baki hjá þingmönnunum var hugsunin að Íslendingar væru kúgaðir. Okkur var hótað afarkostum ef við samþykktum ekki Icesave. Það er enn, frú forseti, verið að hóta Íslendingum afarkostum ef við samþykkjum ekki Icesave.

Það voru samþykkt lög sem margir áttu þátt í. Ég átti t.d. þátt í efnahagslegu fyrirvörunum sem voru þar. Þetta voru lagalegir fyrirvarar sem ég tel að hafi verið ágæt lög í stöðunni þegar Íslendingar voru í kúgunarferlinu. Svo var gert nýtt samkomulag af einhverjum undarlegum ástæðum. Það var engin heimild til þess. Lögin voru samþykkt í ágúst fyrir ári. Ríkisstjórnin tók það upp á sitt eindæmi að semja aftur við Breta og Hollendinga. Það varð sem sagt niðurstaðan og þeir samningar voru samþykktir sem lög frá Alþingi 30. desember sl., þann dapra dag. Sem betur fer sá forseti Íslands til þess að því var vísað til þjóðarinnar sem kolfelldi málið. Hún var ekki tilbúin að gefast upp fyrir þessari kúgun og þessu viðskiptastríði sem við vorum beitt.

Því var hótað að það skylli á frostavetur, ég man ekki hvaða orð hafa verið notuð í þessu samhengi, það áttu að taka við miklar hremmingar og hörmungar en ekkert af því gekk eftir. Við erum ekki enn búin að skrifa undir Icesave. Ég hef sagt að sérhver dagur sem við skrifum ekki undir Icesave sé góður dagur. Ég óska Íslendingum góðs dags og góðra daga, þannig að menn skrifi ekki undir þessa samninga.

Svo gerist það í sambandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem beitt var hömlulaust og grímulaust gegn Íslendingum sem og Evrópusambandinu, allt var notað í þessu stríði, að fram kemur stór þjóð í austri sem heitir Kína og hefur væntanlega sagt við hina aðilana í klúbbnum að svona geri maður ekki. Ég veit ekki alveg hvað þeir sögðu en alla vega hefur sljákkað á þessu og núna fáum við hverja yfirferðina frá AGS á fætur annarri og það mál gengur allt rólega. Samt eru menn enn þá að ýja að því að það þurfi að ganga frá Icesave en allar efnahagsáætlanirnar ganga eftir.

Uppgjöf fyrir kúgunartilraunum Breta og Hollendinga í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið er að mistakast. Nú kemur í ljós að við Íslendingar eigum ekkert að borga þetta og það er mikið happ fyrir íslenska þjóð. Ég tel brýnt að allt þetta ferli verði skoðað. Af hverju voru menn svona? Af hverju skrifuðum við undir þetta samkomulag? Ég hef heyrt, ég bara trúi því ekki, að svo stutt sé frá því að sjálfstæðismenn sáu um þennan málaflokk að þeim var ætlað að bera ábyrgð á þessu og þess vegna hafi verið svo auðvelt að skrifa undir? Í slíkum tilgangi var bitinn allt of stór. Ég trúi því ekki.

Auðvitað hafa menn óttast kúgunaraðgerðir stórveldanna. Maður skilur ferlið í því ljósi. Ég er ánægður með að þessi tillaga sé komin fram. Því miður óttast ég að það verði með þessa tillögu eins og margar aðrar, að eftir umræðu verði henni vísað í nefnd og svo gerist ekki neitt meir. Það er venjan þegar menn vilja ekki horfast í augu við sannleikann. Slík rannsókn mundi leiða ýmislegt í ljós sem kallaði fram umræður. Mér þykir miður að ég skuli þekkja það af langri reynslu minni hér, kannski of löngum tíma á Alþingi, að tillagan muni daga uppi og hvorki verða rannsökuð né könnuð. Það verða því miður örlög þessarar þingsályktunartillögu. Auðvitað vonast ég til þess að Alþingi, í ljósi skýrslu þingmannanefndar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, taki sér tak og fari að samþykkja svona mál þó að þau geti verið óþægileg fyrir einhverja.