139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

16. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu bankanna sem ég flyt ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar. Hér stendur í þingskjali, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands og tengdum málefnum. Til verksins verði fengnir sjálfstæðir aðilar sem hafi sömu heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar og rannsóknarnefnd Alþingis hafði. Ef nauðsyn krefur setur Alþingi lög til að tryggja aðgengi rannsóknarnefndar að nauðsynlegum gögnum og upplýsingum. Forseti Alþingis skipar þriggja manna nefnd til að vinna rannsóknina og skila um hana skýrslu til Alþingis innan sex mánaða frá skipun nefndarinnar.“

Síðan eru talin upp, frú forseti, 15 spurningar og atriði í stafliðum sem nefndin á að leitast við að svara í rannsókn sinni. Ég ætla ekki að lesa það upp, þingmenn geta glöggvað sig á því í þskj. 16, 16. máli, en augljóslega er verið að vísa til niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þeirrar beittu gagnrýni sem þar kom fram á einkavæðinguna sem fram fór árið 2002. Telja flutningsmenn nauðsynlegt að fara ofan í saumana á þeim atburðum. Vissulega hefur margt komið fram og margt kom fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar en ekki er þar með sagt, og alla vega eru flutningsmenn þeirrar skoðunar, að öllum spurningum hafi verið svarað og fullt tilefni sé til að rannsaka þessa þætti betur og upplýsa um framangreind atriði og fá svör við þeim spurningum sem lesa má í tillögunni.

Flutningsmenn vilja líka árétta að hafa þurfi í huga að þeir sem gera rannsóknina svari öðrum spurningum sem fram geta komið við hana. Markmið rannsóknar af þessu tagi er, eins og áður segir, að varpa ljósi á rás atburða við sölu Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002 svo að ljóst sé hvar í stjórnkerfinu, hvenær og hvers vegna hver einasta veigamikla ákvörðun í því ferli var tekin. Aðeins þannig má draga réttan lærdóm af þessu umdeilda söluferli og byggja á þeim lærdómi við setningu laga og reglna um einkavæðingu ríkisfyrirtækja í framtíðinni.

Eins og hv. þingmenn vita var þessi tillaga fyrst flutt sem breytingartillaga við skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem var afgreidd í lok síðasta þings. En það varð að samkomulagi á milli þingflokka að breytingartillögur yrðu ekki afgreiddar í heild með skýrslunni heldur teknar fyrir sem sérstök þingmál í upphafi 139. þings og því stend ég hér og mæli fyrir þessari þingsályktunartillögu, sem áður var breytingartillaga, og vonast að sjálfsögðu til þess að hv. þingmenn allra flokka, sem sæti eiga á hinu háa Alþingi, sjái sér fært að styðja efni hennar og framgang.