139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

16. mál
[17:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á dagskrá í dag eru nokkur mál sem snúa að rannsóknum á ýmsum atriðum sem deilur hafa verið um hvernig voru framkvæmd. Það má segja að það sé meira skoðun aftur í tímann, skoðun á því sem gerðist. Við settum í gang þessa miklu rannsóknarnefnd Alþingis sem skilaði frábærri skýrslu þó svo að eitt og annað vanti í þá skýrslu. Ég hef getið um það áður en kannski er tækifæri til að koma að því örstutt að það vantar að kanna hlut matsfyrirtækja sem mátu þessa banka, gáfu þeim eiginlega besta mat sem til er árið fyrir hrun. Það er líka spurningin um að skoða hlut lánveitenda bankanna sem dældu til Íslands gífurlegum fjármunum, 12 þúsund milljörðum á einhverju gengi sem ég man ekki hvað var eða hvaða dag það var, þetta voru 40 millj. kr. á hvern einasta íbúa, 160 millj. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Það vantar líka inn í þetta veilu í hlutabréfaforminu sjálfu, sem þó hefur verið bent á. Og þessi atriði sem vantar eru dálítið veigamikil.

Við ræðum hér rannsókn á einkavæðingu bankanna. Reyndar hefur, að mér skilst, farið fram skoðun hjá Ríkisendurskoðun á þeirri einkavæðingu. Ýmsar upplýsingar komu fram en mér finnst samt nokkrum spurningum enn ósvarað, t.d. um aðkomu erlends banka, sem var ætlað að koma með erlenda þekkingu og annað slíkt inn í dæmið. Ég held að brýnt sé að fá úr þessu skorið vegna þess að þetta hefur mikið verið rætt.

Það sem mér finnst vanta inn í greinargerðina, og vildi kannski bæta við, er að það sé skoðað hvað gerist þegar hlutafélög fjárfesta í hlutafélögum, sem aftur fjárfesta í hlutafélögum, sem aftur fjárfesta í hlutafélögum, sem hugsanlega fjárfesta aftur í fyrsta hlutafélaginu. Þannig búa menn nefnilega til peninga. Þetta er ég búinn að benda á í frumvarpi um gegnsæ hlutafélög, sem er breyting á hlutafélagalögum, að koma þurfi í veg fyrir að svona lagað gerist, að peningar fari í hring, og hring eftir hring, eins og gerðist á Íslandi. Svo þegar allt hrynur kemur í ljós að það er ekkert inni í þessu. Þetta held ég að hafi líka spilað heilmikið hlutverk í sambandi við einkavæðingu bankanna. En þetta hafa menn lítið hugsað um, horfa bara hissa á og spyrja: Hvaðan koma peningarnir og hvert fóru þeir? Og átta sig ekkert á hvað gerðist. Eins og ég benti á um daginn spurði danskur bankamaður: Hvaðan koma peningarnir sem Íslendingar eru með? Ég þykist hafa svarað honum á þann veg að þessir peningar hafi bara ekki verið til. Þeir voru sýndir með reglum endurskoðenda sem eru í gildi um allan heim og það er ákveðin veila í þessu kerfi, hlutabréfakerfinu, sem við þurfum að skoða.

Ég er á margan hátt alveg sammála því að fara í þessa skoðun. Það er náttúrlega alltaf spurning um hvað við megum eyða miklum peningum í fortíðina. Við þurfum að mínu mati mest að horfa til framtíðar. En ef reynslan af fortíðinni getur kennt okkar um framtíðina finnst mér þeim peningum vel varið. Það er mikilvægt að menn hafi þekkingu á fortíðinni þannig að menn geti í framtíðinni lært af því við einkavæðingu annarra banka. Nú er búið að einkavæða tvo af bönkunum, kannski á eftir að einkavæða þann þriðja.