139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar sem er lögð fram af sjö þingmönnum úr þremur flokkum. Þetta er ein af þeim breytingartillögum sem fengu ekki brautargengi hjá þingmannanefndinni og var samkomulag um að þær yrðu lagðar fram sem sjálfstæð mál og óháð þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar á grundvelli skýrslu sinnar.

Tillagan gengur út á að á vegum Alþingis fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi í málinu hér á undan um að mikilvægt væri að hafa skýr markmið með þeim rannsóknum sem við færum út í og það væri jafnframt mjög mikilvægt að þingið gæti klárað mál pólitískt, gæti lokið málum og sett endapunkt við þau. Ég ætla að vera algjörlega sammála þingmanninum og tel að við eigum að vara okkur á að gera rannsóknir í pólitískum tilgangi.

Ástæðan fyrir því að við leggjum tillöguna fram er sú að Íbúðalánasjóður er húsnæðislánasjóður á vegum ríkisins og hefur sem slíkur mikilvægt hagstjórnarhlutverk. Hinn mikilvægi þáttur húsnæðismála er að þau eru grundvallarvelferðarmál fyrir fjölskyldurnar í landinu en jafnframt eru þetta einu fjárfestingar heimilanna og húsnæðislánamarkaðurinn hefur þar af leiðandi áhrif á hagstjórnina í landinu.

Árið 2003 var tilkynnt um breyttar útlánareglur Íbúðalánasjóðs og leitað álits hjá þar til bærum aðilum. Tillögur voru gerðar um að auka lánshlutfall lána og einnig um að hækka hámarkslán. Á móti átti að stytta lánstíma í 30 ár og gera það að skyldu að lán Íbúðalánasjóðs væru á 1. veðrétti. Þessir tveir síðari punktar áttu að draga úr þensluáhrifum aðgerðarinnar.

Það er skemmst frá því að segja að ekki var farið út í seinni punktana tvo heldur aðeins gerðar breytingar varðandi þensluvekjandi þættina. Í kjölfarið fóru viðskiptabankarnir þrír og sparisjóðirnir inn á íbúðalánamarkaðinn með ákaflega miklu kappi en mun minni forsjá og hafa einhverjir þeirra viðurkennt það. Kaupþing reið á vaðið og hinir bankarnir hafa viðurkennt að þeir hafi fylgt í blindni af samkeppnisástæðum án þess að vera í raun í stakk búnir til þess. Það er sannarlega ekki á ábyrgð Íbúðalánasjóðs þegar einkafyrirtæki haga sér óskynsamlega.

Það er tvennt sem ég held að skipti mjög miklu máli að þingið fái skýra mynd af. Hvernig gerist það að ákvarðanir eru teknar sem vitað er að hafi þensluhvetjandi áhrif og aðilar sem hefur verið óskað álits hjá hafa staðfest það? Þetta gerist á miklum uppgangstíma í hagkerfinu en þó er látið hjá líða að fara í aðgerðir sem draga úr þenslunni. Þarna má læra af mistökunum. Í öðru lagi það sem gerðist í kjölfarið og enginn sá svo sem fyrir þegar þessar fyrirætlanir voru á teikniborðinu. Þegar bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn með svona miklu offorsi fór fólk að greiða upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði. Upp safnaðist fé sem sjóðurinn þurfti náttúrlega að ávaxta því að hann gat ekki vegna breyttrar fjármögnunar greitt upp skuldir sínar á móti. En í staðinn fyrir að setja féð inn í Seðlabanka, þar sem vissulega hefði getað orðið neikvæður vaxtamunur því veitt áfram út í bankakerfið til að fjármagna þá óábyrgu útlánastarfsemi sem þar átti sér stað og það án, að því er ég best veit, nokkurra sérstakra skilyrða um útlánareglur.

Ástæðan fyrir því að við sem flytjum tillöguna teljum þetta skipta miklu máli er sú að langflestar fjölskyldur á Íslandi búa í eigin húsnæði. Aðgengi að öruggu húsnæði skiptir miklu máli og þar hefur Íbúðalánasjóður spilað mikilvægt hlutverk, sérstaklega fyrir landsbyggðina en ætti líka að gera það fyrir þá sem eru í þeim aðstæðum, vegna lágra launa, að eiga erfitt með að útvega sér húsnæði eða eru að kaupa fyrstu íbúð. Svo við tölum nú ekki um ef hér væri húsnæðiskerfi sem gerði fólki kleift að búa í öruggu húsnæði án þess að þurfa að fjárfesta í því. En það er önnur saga.

Ég held að það skipti miklu máli að við rannsökum þetta mál til að fá fullan skilning á því hvers konar hlutverk við viljum að ríkið leiki á húsnæðislánamarkaði og komum því hlutverki ríkisins svo fyrir að það vinni ekki gegn hagstjórninni. Eins er fyrirséð að ríkissjóður mun þurfa að leggja sjóðnum til umtalsvert fé á komandi missirum. Þá hlýtur að vera krafa okkar þingmanna sem berum ábyrgð á fjárlögum að við vitum hvernig þessi vandi kom til og getum tryggt að hann gerist ekki aftur.

Í þessu sambandi vil ég segja að mér fannst það ákaflega mikilvægur punktur í skýrslu þingmannanefndarinnar varðandi vangaveltur þeirra um hvort ekki væri eðlilegt að Seðlabankinn fengi völd og heimildir til þess, í miklu þensluástandi, að lækka leyfilegt veðhlutfall á húsnæðislánum, sama hvar þau eru veitt á markaðnum, hvort það er af hálfu hins opinbera eða einkafyrirtækja á fjármálamarkaði. Hann gæti kannski beitt sér líka með öðru móti á húsnæðislánamarkaði þannig að dregið væri úr líkunum á því að við lendum aftur í viðlíka eignabólu í húsnæði og á árunum 2004–2008. Það er annað verkefni en þessari rannsókn er ætlað. Ég vil þó koma inn á þetta því ég tel ákaflega mikilvægt að ríkið sé meðvitað um mikilvægi hagstjórnarþáttar húsnæðislána en að sjálfsögðu ekki síður um mikilvægi þess að tryggja að fjölskyldur í landinu hafi aðgengi að öruggu húsnæði, óháð því hvort við eigum húsnæðið sem við búum í, leigjum það eða höfum á kaupleigu eða í búsetufélögum og slíku.

Mér skilst að eðlilegt sé talið að tillögurnar um rannsóknir fari í allsherjarnefnd og sem einn af flutningsmönnum þessarar tillögu tel ég það vera gott fyrirkomulag.