139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[18:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn eina rannsóknina aftur í tímann. Eins og ég gat um áður þurfum við að velta því fyrir okkur hvað þetta kostar. Ég er flutningsmaður að þessari tillögu af því að ég held að ýmislegt í slíkri rannsókn gæti varpað ljósi á það sem gerðist síðar í hruninu.

Eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur fóru bankarnir inn á svið Íbúðalánasjóðs. Ég vil segja að Íbúðalánasjóður hafi á vissan hátt ögrað þeim til þess af því að áður var 70% þak á lánsupphæð og bankarnir lánuðu þá viðbótina með sínum vöxtum sem voru töluvert hærri og fullnægðu þannig þeirri þörf sem markaðurinn hafði. Bankarnir lánuðu oft með 6–7% vöxtum þegar Íbúðalánasjóður var með töluvert lægri vexti. Það sem gerðist á sama tíma var að bankarnir fengu gífurlega gott mat hjá matsfyrirtækjum úti í heimi, sem mér er enn þá algjörlega óskiljanlegt, þannig að þeir gátu farið að keppa við Íbúðalánasjóð sem var með svipað mat í gegnum ríkissjóð. Bankarnir voru eiginlega með svipuð lánskjör úti í heimi og ríkissjóður sjálfur. Það er ástæðan fyrir því að þeir fóru í hörkusamkeppni við Íbúðalánasjóð og buðu jafnvel lægri vexti, Kaupþing bauð fasta 4,15% vexti allan lánstímann og margir Íslendingar njóta þess í dag. Þetta eru lægstu vextir sem hafa boðist, reyndar verðtryggðir.

Margir notuðu tækifærið, maður sem borgaði 100 þús. kr. á mánuði, miðað við 5–6% vexti sem voru á gömlum lánum, sá sér leik á borði að borga gamla lánið upp og taka lán með 4,15% vöxtum til jafnlangs tíma og jafnvel með sömu greiðslubyrði og gat hann fengið töluvert mikla fjármuni í milligjöf. Ég náði ekki að reikna það en það gat hæglega náðst heilt bílverð út úr því, kannski ekki fyrir stóran bíl, en hann gat borgað nákvæmlega það sama eftir sem áður og breytt láninu yfir í lægri vexti og fengið þannig bílverð í mismun.

Þetta er ein ástæðan fyrir þeirri þenslu sem varð hér og ég tel vera meginástæðuna; það var þessi innrás bankanna inn á markaðinn sem buðu allt upp í 100% lán sem menn vöruðu sig ekki á að hugsanlega væru þeir að reisa sér hurðarás um öxl.

Þetta hafði meiri áhrif. Eins og kom líka fram sat Íbúðalánasjóður uppi með gífurlega fjármuni vegna uppgreiðslna sem hann fann ekki ávöxtum fyrir. Ég held að hann hafi ekki haft möguleika á að setja þá inn í Seðlabankann á verðtryggðum kjörum þannig að hann varð að koma þessum peningum einhvern veginn út. Hann gerði samkomulag við einhverja sparisjóði, alla vega SPRON og einhverja banka, ég veit ekki nákvæmlega hverja, þar sem hann keypti fasteignatryggð skuldabréf með sambærilegum kjörum á lágum vöxtum. Ekki voru gerðar kröfur um hámarkslán eða í hvað peningarnir fóru, hvort þeir fóru í bíla, ferðalög eða fasteignir, en lánin þurftu að vera með veði í fasteignum. Þannig fóru ríkistryggðir peningar úr Íbúðalánasjóði, sem eru hugsaðir sem félagsleg lán til íbúðakaupa upp að ákveðinni stærð o.s.frv., í eitthvað allt annað. Það gerðist af því að hann keypti upp skuldabréf og færði þau rök fyrir því að það hefði verið neyðarbrauð vegna þess að hann sat uppi með alla þessa peninga. Engu að síður fóru peningar með ríkisábyrgð sem ætlaðir voru til félagslegra þarfa í kaup á bílum, sumarbústöðum og öðru því sem Íbúðalánasjóði er ekki ætlað að fjármagna.

Ég held því að aðalvandinn hafi verið mat á bönkunum. Þess vegna finnst mér svo undarlegt, sem ég benti á í umræðu um annað mál rétt áðan, og skoða þurfi hvernig stóð á því að matsfyrirtækin úti í heimi gáfu bönkunum svona óskaplega gott mat. Ég tel mig hafa svar við því. Það er veila í hlutabréfaforminu sem menn notuðu hér, og sú veila er um allan heim, og menn notfærðu sér það til að búa til mjög hátt eigið fé í fyrirtækjunum sem ekki var til. Við að lána starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum jókst eigið fé bankanna, merkilegt nokk, því að skuldabréf sem gefið var út til kaupa á hlutabréfum var talið til eignar en hlutaféð sem kom inn í bankann var ekki talið til skuldar, þannig að eigið fé bankanna batnaði við það að þeir lánuðu starfsmönnum óhemjufé. Með því og ýmsum tilfæringum gátu þeir fengið mjög hátt eigið fé, mikinn hagnað líka, kynntu þeir, og það varð til þess að þeir fengu svona gott lánshæfismat úti í heimi, sambærilegt og íslenska ríkið. Það þýddi að þeir gátu farið í samkeppni við Íbúðalánasjóð sem er kannski ástæðan fyrir þenslunni og kannski líka hruninu.