139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs undir þessum lið til að ræða þá stöðu sem við erum í í kjölfar mikilla mótmæla á undanförnum dögum sem senda okkur á þinginu skýr skilaboð um hvert okkar verkefni er. Vissulega er krafa almennings ekki ein, forsendurnar eru margar, en ég held að við getum verið sammála um að það eru skuldamál heimila og fyrirtækja sem brenna helst á almenningi í landinu og krafan er sú að við stöndum okkur betur í því að koma með lausnir sem raunverulega duga.

Krafan er mjög sterk á okkur í þinginu að vinna saman af heilindum að lausnum og það er krafa sem við verðum að taka mjög alvarlega. Hún er sanngjörn og eðlileg. Þó að við séum vön því að takast á með ólíka lífsýn og ólíkar stefnur er staðreyndin líka sú að við sýnum það á hverjum degi í nefndum þingsins að við getum unnið saman og við gerum það í langflestum málum, og þó að við komum að málum með ólíka stefnu eru menn vanir því að ná niðurstöðu sem tekur mið af mismunandi afstöðu til þeirra leiða sem í boði eru.

Við verðum að átta okkur á því að við erum stödd í miðju byltingarástandi. Innviðir samfélagsins hrundu fyrir tveimur árum og þær lausnir sem við þurfum að finna koma ekki eins og hendi sé veifað. Það tekur mörg ár að byggja upp nýtt samfélag. Það verður ekki byggt upp með gamaldagsskotgrafarhernaði. Það verður byggt upp með nýrri tegund af samstarfi, allsherjarsamstarfi á landsvísu um endurreisn heimila og fyrirtækja í landinu. Ég tel að við eigum að finna leiðir til að setja á fót reglubundið samstarf fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna, aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa viðskiptabankanna og Seðlabanka Íslands, háskólasamfélagsins, Hagsmunasamtaka heimilanna og sérfræðinga um að finna lausnir sem hafa verið á borðum undanfarna mánuði og missiri, finna nýjar lausnir og ræða okkur til niðurstöðu.

Við eigum líka að taka almenning að þessu borði, halda þjóðfundi í öllum kjördæmum þar sem menn sitja saman og ræða lausnir til niðurstöðu. Hér verðum við öll að brjóta odd af oflæti okkar, stjórnmálaflokkarnir, bankarnir, viðskiptaaðilar, (Forseti hringir.) allir verða að komast út úr þröngum sérhagsmunum og finna leið sem dugar til að færa okkur framtíð sem er betri en sá veruleiki sem við höfum búið við í landinu undanfarin ár.