139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara örstutt vegna þess sem hefur verið tekið upp undir þessum lið og fyrst í framhaldi af orðum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar lýsa þeirri skoðun minni að ég tel ákaflega mikilvægt að ráðherrar og ráðuneyti svari fyrirspurnum sem frá Alþingi koma. Ég held að margir þingmenn hafi upplifað það að oft hefur dregist úr hömlu að svara fyrirspurnum. Það er ekkert nýtt í þingsögunni, það hefur lengi viðgengist. Samkvæmt þingsköpum eiga ráðherrar að svara fyrirspurnum og hafa til þess 10 daga en það gerist allt, allt of oft að sá frestur er ekki virtur. Ég tel að þingið þurfi að efla eftirlit sitt að þessu leyti og það hlýtur ekki síst að vera á verksviði forseta þingsins að ganga eftir slíku.

Hvað varðar skuldastöðu heimilanna sem hv. þingmenn Skúli Helgason og Ásmundur Einar Daðason gerðu að umtalsefni vil ég einfaldlega taka undir með þeim. Ég tel að það sé mikilvægt að við snúum öll bökum saman í því að vinna á þeim mikla vanda sem víða blasir við og mörg heimili standa frammi fyrir. Sem betur fer hafa margir sloppið, ef nota má það orð, þokkalega frá þeirri kreppu sem við stöndum frammi fyrir og erum í miðri. En engu að síður er það líka þannig að mjög mörg heimili glíma við mikinn vanda og við eigum að leggja okkur fram um að finna sameiginlegar lausnir á því í samstarfi við hagsmunaaðila og frjáls félagasamtök, lífeyrissjóðina, Íbúðalánasjóð, bankastofnanir o.s.frv. og þar verða allir að leggja sitt af mörkum.

Ég harma auðvitað að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki mætt á samráðsfund með ríkisstjórninni sem fulltrúar annarra flokka voru boðaðir (Forseti hringir.) til en ég vona að það sé tímabundið ástand og þeir komi með í þennan leiðangur.