139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson ræddi hérna réttilega hvernig þessum málum hefur verið háttað en eitt gleymdist þó í ræðu hv. þingmanns; undanfarin ár hefur sá rækjukvóti sem gefinn hefur verið út ekki verið nýttur. Hann hefur verið nýttur í brask og því um líkt, það hefur ekki verið veitt það magn sem gefið hefur verið út. (JónG: Þetta er rangt, þingmaður.) — Það hefur ekki verið veitt það magn sem gefið hefur verið út. (JónG: Þetta er rangt.) En varðandi skýrsluna (Gripið fram í.) sem er nýkomin frá Hafró veit ég ekki betur en að þetta sé allt til skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og ég tek undir með hv. þingmanni að það þurfi að skoða það mál. (Gripið fram í.)

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ræddu varðandi hv. félagsmálanefnd og skuldug heimili. Þar hefur verið unnið gott starf, hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sýnt þar gott fordæmi sem stjórnarandstöðuþingmaður og ég tek hatt minn ofan fyrir honum vegna þess. Ég held að við þurfum að skoða þær hugmyndir, til að mynda þær sem komið hafa upp um að víkka út embætti umboðsmanns skuldara þannig að öllum sé beint þar inn, hvort sem þeir geta farið í greiðsluaðlögun eða eru verr staddir en þeir sem þar eru. En við þurfum líka að huga að almennum aðgerðum, það er það sem kallað er eftir núna og sem margir hafa bent á. Við þurfum einnig að ræða hvort ekki sé rétt að taka svokallað lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur aftur á dagskrá í þinginu.