139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem á sér stað vil ég koma því á framfæri að hv. þm. Kristján L. Möller hefur beðið um umræðu utan dagskrár við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um rækjuveiðarnar. Það hefur, eins og fram kom í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar, verið rætt ítarlega í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á undanförnum vikum og verður það væntanlega áfram. Að sjálfsögðu hljóta þingmenn að styðja það að málin verði skoðuð með tilliti til álits Hafrannsóknastofnunar sem er nýkomið, að því er ég best veit.

Hvað varðar önnur umræðuefni vil ég styðja það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði um að fá öll gögn úr ráðuneytum er varða sameiningu ráðuneyta og stofnana svo greinargerðir og rökstuðningur liggi fyrir í nefndum og í umræðum í þinginu. Ég tel að þar séu ekki bara greinargerðir heldur einnig skýrslur sem megi byggja umræðu og fagleg störf á hér í þinginu.

Hvað varðar húsnæðisöryggi og málefni þau sem eru til umræðu í hv. félags- og tryggingamálanefnd tók ég sæti í þeirri nefnd í gær. Það er rétt sem formaður nefndarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, segir, þar vinna þingmenn stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu sem einn maður að því að finna lausnir, að því að gera nauðsynlegar lagabreytingar og skapa þann grundvöll sem húsnæðisöryggi þarf að vera fyrir velferð í landinu. Ég hef fulla trú á því að það takist í góðri samvinnu við ríki, sveitarfélög og Íbúðalánasjóð að koma málum þannig fyrir að hér fari enginn á götuna.