139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

svör við fyrirspurnum -- vinnulag á þingi -- lög um greiðsluaðlögun o.fl.

[10:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Um leið og ég tek undir orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar vil ég ítreka fyrst og fremst að það sem við okkur blasir núna er að mínu mati tvíþætt. Annars vegar er það hinn bráði skuldavandi heimila sem þarf að finna lausnir á og hins vegar er það sá vandi sem við er að glíma í atvinnulífinu sem þarf að leysa til þess að við séum fær um að losna úr því kreppuástandi sem við nú erum í. Bráðaaðgerðir, hugsanlega frestanir og skuldaleiðréttingar eru ekki varanleg lausn á efnahagskreppunni. Þær skipta gríðarlegu máli en það þarf meira til og annað til að koma okkur upp úr hjólförunum sem við núna erum í.

Það er hárrétt sem nefnt hefur verið að það þarf vinna mjög skjótt t.d. að því að efla fjárfestingu hér á landi. Það hefur verið alveg sláandi hve fjárfesting í atvinnulífinu hefur verið lítil undanfarin tvö ár. Það er skiljanlegt af mörgum ástæðum en ef við ætlum að ná okkur upp úr kreppunni þarf þetta að aukast. Til þess eru leiðir og þær þurfum við að leiða fram. Þar eru vandamál við að glíma sem þarf að losna við. Það þarf að losna við það neikvæða viðhorf gagnvart fjárfestingu í atvinnulífinu sem hefur því miður gætt af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Það þarf að losna við skattapólitík núverandi ríkisstjórnar sem er mjög fjandsamleg atvinnulífinu, hræðir menn frá því, bæði innlenda og erlenda aðila, að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum (Gripið fram í.) í stað þess að laða menn að. (Forseti hringir.) Þetta eru gríðarlega mikilvæg mál. Annars sitjum við föst í kreppunni, ekki næstu mánuði heldur næstu missiri og jafnvel ár.