139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:35]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé ekki að það eigi að skipta máli. Ef flokkur eða þingmaður er mjög ósáttur við mál og vill koma því sterkt á framfæri tel ég ekki að aðferðin sé sú að þau mótmæli mælist í ræðulengd. Þau mótmæli hljóta að mælast í innihaldi ræðu og hvernig hv. þingmaður orðar hlutina, hvað hann tekur djúpt í árinni o.s.frv. en ekki í lengd ræðunnar.

Eiginlega finnst manni það ekki boðlegt, þegar þingmenn koma hér upp, þó að þeim sé mikið niðri fyrir, að þeir standi hér í mjög langan tíma. Það er bara ekki boðlegt og við eigum líka að endurspegla einhverja rökræðu hér inni og almenningur er að fylgjast með. Þetta er hluti af lýðræðinu, við erum að tala til almennings. Almenningur vill ekkert einhverjar (Forseti hringir.) langlokur þó að ræðumanni sé mikið niðri fyrir. Hann verður bara að segja það í orðum sínum.