139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að fagna þessu frumvarpi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og lýsa yfir stuðningi við efni þess. Það fer sína leið í meðferð Alþingis. Ég vil líka taka undir þau orð, sem féllu hér, að vonandi tekur það ekki langan tíma og vonandi sýnum við fram á vilja til breytinga á löggjafarsamkomunni. Þingsköp Alþingis eru skilgetið afkvæmi feðraveldisins og það er kominn tími til að breyta því og breyta því í takt við þá tíma sem við lifum á. Og ég get tekið undir hvert orð í ræðu hv. flutningsmanns, Sivjar Friðleifsdóttur.

Mig langar að spyrja hv. flutningsmann hvort henni finnist koma til greina, og mig minnir að slík tillaga hafi komið fram frá fyrrverandi þingmanni, Kristni H. Gunnarssyni, að þingið ákveði hversu lengi hvert þingmál á að vera í meðförum þingsins, þ.e. frá því að það er lagt fram og þangað til það er afgreitt. Nefndir hafa verið sex til níu mánuðir.