139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að nú er tækifærið til að gera þessar breytingar. Við lifum á byltingartímum og við eigum að starfa í samræmi við það. Ástæða þess að ég nefndi líftíma þingmála í þinginu er sú að eins og við vitum hefur oft verið rætt hér að þau eigi að fá að lifa lengur en í eitt þing, það sé eðlilegt, sérstaklega þegar um stór mál er að ræða og það þurfi ekki að endurflytja þau þá á nýju þingi. Það er eitt af því sem þarf að skoða við breytingar á þingsköpum Alþingis, en það er líka aðhald í því, sérstaklega gagnvart ríkisstjórn, eða ráðherrum réttara sagt, að þeir geti ekki komið hér fram með mál og fengið þau afgreidd á einum degi eins og stundum hefur gerst — nema þá að það sé gert með auknum meiri hluta, samþykki aukins meiri hluta þingmanna, eða einhverjum öðrum sérstökum undanþágum ef svo má að orði komast.