139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:40]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er með margar góðar hugmyndir. Þetta er líka nokkuð sem þarf að taka til skoðunar varðandi það hvort alltaf eigi að flytja öll málin upp aftur og aftur ár eftir ár. Ég er farin að hallast að því að það sé mikill galli að vera alltaf að halda sömu framsöguræðurnar. Það er líka eitt sem ég tel að við þyrftum að skoða, af því að við erum farin að tala um aðra hluti í þessari umræðu, það er hvort stíga eigi annað skref hér sem Norðmenn hafa tekið, það er að málin fari beint til nefndar, þ.e. að ef ráðherrar koma fram með mál fari það beint til nefndar, fari ekki í 1. umr. í þingið, heldur beint til nefndar og nefndin vinni það og svo fari það inn í þingið. Þetta tíðkast í sumum þingum og ég held að Norðmenn séu í flestum tilvikum með þetta svona. Þá eru færri umræðuhringir en nefndin kemur fyrr að málum og þá er þetta ekki eins og ráðherrann sé að skella einhverju inn í þingið, heldur er það nefndin sem skellir einhverju inn í þingið og það verður svona meiri þingræðissvipur af vinnslunni.