139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Talandi um feðraveldi, þá er það hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem mun hafa talað lengst, í 10 tíma alls í einni ræðu. Varðandi mína persónu sem nefnd var hér hef ég þann metnað að hafa ræðutímann að meðaltali undir 2,8 mínútum. Ég skammast mín þegar ég er kominn yfir svona 8–10 mínútur í ræðu. Þá er ég ekki nógu skýr í hugsun.

Ég vil spyrja hv. þingmann. Þetta eru athyglisverðar tillögur en ég fullyrði að samningurinn um Icesave sem gerður var 5. júní 2009 hefði verið samþykktur í fyrstu atrennu ef þessar reglur hefðu verið í gildi, með óbærilegum kvöðum fyrir þjóðina og miklu, miklu verri stöðu en við upplifum í dag.