139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:48]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Ég vil byrja á því að hæla hv. þingmanni Pétri H. Blöndal fyrir ræðustíl af því hv. þingmaður segist ekki geta hugsað skýrt eftir átta mínútur. Ég held að það eigi við um marga. Ef menn tala mjög lengi verður málið ekki mjög skýrt. Hv. þingmaður talar mjög sjaldan lengi, nánast aldrei, þannig að það er til fyrirmyndar. Hv. þingmaður náði því eigi að síður að verða ræðukóngur vegna gríðarlega margra ferða í ræðustól.

Varðandi Icesave ætla ég ekki að fullyrða hvort það hefði farið í gegn eða ekki. Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem stöðvaði það mál að lokum. Ég get ekki dæmt um hvort hann hefði tekið aðra afstöðu ef tíminn sem fór í umræðurnar hefði verið styttri. En almennt séð tel ég að málþóf sé galli á okkar störfum (Forseti hringir.) og að við eigum ekki að stunda það.