139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Ég tel að í því sé afar góð hugsun og skynsamleg fyrir okkur sem störfum á þinginu. Í anda frumvarpsins ætla ég ekki að nota allar 15 mínúturnar sem mér sýnist að mér séu ætlaðar í ræðustól Alþingis, heldur reyna að hafa mál mitt styttra.

Ég held að það sé afar mikilvægt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að þessi aðferð hefur það sem hliðarafurð að líkindi á málþófi minnka verulega, en ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það getur náttúrlega ekki verið meginástæðan fyrir því að flytja frumvarp. Ég er hv. þingmanni algjörlega sammála í því.

Ég held líka að slík takmörkun eða hugmyndir að takmörkunum eins og þarna koma fram tryggi líklega að hv. þingmenn undirbúi ræður sínar betur, væntanlega að einhverju leyti með því að setja sig betur inn í mál. Þeir vissu fyrir fram að þeir hefðu knappari tíma og þetta yki væntanlega líkurnar á að þingflokkar stilli saman strengi sína og skipi jafnvel oftar tiltekna talsmenn í málum og kæmu þannig í sameiningu að einhverju leyti sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég tek hins vegar undir það líka sem kom fram áðan að auðvitað má ekki taka af þingmönnum réttinn til að tjá sig í málum, en ég held að vinnulagið sem væntanlega kæmist á yrði frumvarp líkt þessu að lögum mundi smátt og smátt færast í það far að hér yrðu knappari, skýrari og betur rökstuddar umræður um mál í þinginu.

Ég vil beina því til hv. flutningsmanns og væntanlega allsherjarnefndar, sem eins og kom fram áðan fær málið til meðferðar, að skoða betur þær hugmyndir sem koma fram í 1. gr. frumvarpsins um það hvernig ræðutíma verði skipt milli þingflokka. Ég tel að þarna megi ganga býsna langt í að hafa tímann jafnan á milli þingflokka, þó að ég sjái vissulega líka þau sjónarmið sem hv. flutningsmaður kemur inn á að með einhverju móti megi horfa til þess hvert vægi þingflokkanna er.

Ég velti líka fyrir mér varðandi hugmyndir um að tillögur kæmu frá nefndum um áætlaðan ræðutíma í einhverjum tilteknum málum, hvort mætti fela forseta einhliða að gera tillögur um ræðutíma og það væri fremur þannig að tillaga kæmi frá þingmönnum sjálfum um að hnekkja þeirri tillögu. Það mundi setja meiri formfestu á þetta.

Það er síðan hægt að ræða miklu fleira í þessu sambandi. Hv. flutningsmaður kom inn á það m.a. í ræðu sinni að mál ættu jafnvel að fara fyrst til nefndar, þ.e. sérstaklega stjórnarmál. Ég nefndi þetta í ræðu minni í umræðunni um skýrslu þingmannanefndar Alþingis um rannsóknarskýrsluna í haust að þetta gæti verið skynsamlegt verklag, þetta mundi væntanlega spara tíma í þingsal. Ég nefndi einnig hvort það mætti ekki líka setja einhvers konar reglur um að þingmannamál fengju afgreiðslu, og hvort sem hún væri á jákvæðan eða neikvæðan hátt þá kláruðust mál einhvern tímann. Mér líst eiginlega betur á einhverjar slíkar reglur en að mál flytjist á milli þinga, þ.e. að þau geri það jafnvel sjálfkrafa.

Í dag er það til að mynda þannig að ræðutími í utandagskrárumræðum er takmarkaður og einhverra hluta vegna eru það umræður sem menn virðast miklu frekar hafa áhuga á, enda eru málalengingar og málþóf, getum við sagt, ekki þekkt í slíkum umræðum vegna þess að það er í rauninni ekki í boði. Þingmenn koma undirbúnir og tala í tvær mínútur, koma ýtrustu sjónarmiðum sínum á framfæri vegna þess að þeir hafa knappan tíma — og búið. Ég held að það væri ágætt að hugsa þetta svolítið í þeim dúr. Þingin í löndunum í kringum okkur, ekki bara í Evrópu heldur líka í Vesturheimi, hafa farið þá leið að takmarka ræðutíma. Á Bandaríkjaþingi er það til að mynda þannig að þingmönnum er sem einstaklingum úthlutað ræðutíma í málum en þeir geta þó jafnframt ánafnað öðrum þingmanni ræðutíma sínum ef þeir telja hann eða hana betur fallna til þess að tala máli síns flokks eða sinna sjónarmiða. Það er annar vinkill á þessu.

Virðulegi forseti. Ég er tilbúinn fyrir mitt leyti að leggja mitt af mörkum til að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu í þinginu ásamt jafnframt, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á, frumvarp forseta um breytingar á þingsköpum. Ég fagna öllum góðum hugmyndum um bætt vinnubrögð á þinginu.