139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:22]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Nú er komið að lokum 1. umr. þessa máls og ég vil nýta tækifærið og þakka þeim sem tóku til máls. Sjö hv. þingmenn tóku til máls og sex voru mjög jákvæðir að mínu mati, einn hv. þingmaður var kannski með efasemdartón, þ.e. hv. þm. Pétur H. Blöndal. Reyndar þykir mér heldur verra að hafa farið í gegnum 1. umr. án þess að heyra sjónarmið frá Sjálfstæðisflokknum nema í stuttu andsvari frá hv. þm. Pétri H. Blöndal, en sjónarmiðin hljóta þá að koma fram síðar við vinnslu málsins.

Varðandi þau viðbrögð sem málið hefur fengið hér, jákvæðu viðbrögð, finn ég samt að hv. þingmenn eru að velta fyrir sér varnargirðingum, hvort of langt sé gengið í frumvarpinu varðandi það að afnema alveg þann gamla möguleika að koma á málþófi. Mér heyrist þingmenn tala mjög jákvætt um það að við getum skipulagt vinnuna frá degi til dags, þeir séu mjög opnir fyrir því og sjái ekki galla á því, en það sé kannski þyngra fyrir fæti þegar kemur að málþófinu. Þess vegna er einmitt minnst á það í greinargerðinni að æskilegt væri að gera aðrar breytingar samhliða þessu máli til þess einmitt að setja hömlur eða bremsur sem stundum geta átt rétt á sér. Þá er þar helst til að taka þjóðaratkvæðagreiðslur, að minni hluti þings gæti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi mjög umdeild mál. Menn hafa líka rætt um að ákveðinn hluti þjóðarinnar gæti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu. Við gætum haft þetta beggja blands, þ.e. að bæði ákveðinn hluti þjóðarinnar og ákveðinn hluti þings gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu, þar eru komnir hemlar. Þar er hemill sem minni hluti þings gæti togað í ef fram kæmi eitthvert mál sem væri gríðarlega umdeilt. Við ræddum hér Icesave-málið á fyrri stigum. Það er mál sem ég tel að hefði líklega lent í þjóðaratkvæðagreiðslu ef við hefðum verið með ný þingsköp og við hefðum væntanlega líka þurft að breyta stjórnarskrá til þess.

Síðan kom hugmynd, sem ég hef ekki velt fyrir mér en mér finnst mjög athyglisverð, frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um að í umdeildum málum gæti stjórnarandstaðan eða ákveðinn hluti þingmanna beðið um frestun á milli umræðna, lengri frest — ég býst við að þá værum við að tala um einhverjar vikur væntanlega — til að mál fengju meiri skoðun á milli umræðna og hægt væri að kæla mál niður og reyna að ná meiri samstöðu um þau. Það er vel hægt að hugsa sér að setja einhver slík ákvæði inn til að líta svo á að við séum að setja einhverja hemla inn í nýju þingsköpin.

Svo kom hér líka hugmynd frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um hvort hægt væri að koma því svo fyrir þegar nefndir leggja til við forseta hve umræðutími eigi að vera langur miðað við þau mál sem eru til umfjöllunar í nefndunum að ekki þyrfti bara meiri hluta í þingnefnd til að koma tillögunni á framfæri heldur aukinn meiri hluta. Þannig að stjórnarflokkarnir á hverjum tíma gætu ekki alveg ákveðið umræðulengdina sisvona og svo væru greidd atkvæði um það og stjórnarmeirihlutinn héldi því, heldur yrði vera aukinn meiri hluti sem þýðir að væntanlega kæmu þá einhverjir stjórnarandstæðingar inn í púkkið sem þyrftu að styðja tillögu um umræðulengdina.

Allt þetta þarf að skoða í allsherjarnefnd þegar hún fjallar um þetta mál, af því að ég tel alveg eðlilegt að menn hafi hemla en að meginhugsunin sé að við förum út úr því fyrirkomulagi sem við erum með núna, að menn geri ráð fyrir því fyrir fram hve langan tíma umræður taki og fari svo eftir þeim tíma sem úthlutað er eins og gefur að skilja.

Loks kom hér ein hugmynd sem mér líst síður á og það var hvort fela ætti forseta einhliða að gera tillögur um ræðutíma í 2. og 3. umr. og svo gætu þingmenn reynt að hnekkja því. (Gripið fram í.) Ég held að það væri heldur verri svipur á því.

Ég tel að þingnefndirnar hafi meiri þekkingu en þingforseti á því hve mikinn umræðutíma þyrfti að áætla í 2. og 3. umr. Hv. þingmenn sem sitja í þeim nefndum sem fjalla um málin verða mestu sérfræðingarnir í málunum og geta best áætlað ræðutímann. Ég held að það væri ekki gott að hafa fyrirkomulagið þannig að þingforseti kæmi í öllum tilvikum með tillöguna.

Það er rétt sem hér kom fram að hæstv. þingforseti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir lagði fram til kynningar frumvarp um breytt þingsköp. Þar er tekið á mjög mörgum þáttum. Þær tillögur eru í samræmi við tillögur sem forsætisnefnd hefur rætt og fékk í kjölfarið af vinnu sérfræðinga sem laut að því að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Þær tillögur eru alveg í samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar um bankahrunið og líka í samræmi við þingsályktunartillöguna frá Atlanefndinni sem við greiddum atkvæði um og fór 63:0. Allir hv. þingmenn samþykktu þá þingsályktunartillögu.

Ég tel eðlilegt að það mál sem við fjöllum hér um fái skoðun í allsherjarnefnd og sé rætt samhliða hinni stærri endurskoðun á þingsköpunum sem forsætisnefnd mun hugsanlega flytja bráðlega og er á grunni þess frumvarps sem hæstv. þingforseti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir lagði inn til kynningar á síðasta þingi, vegna þess að ég held að erfitt sé að gera þá breytingu sem við ræðum hér, um takmörkun á ræðutíma og meiri skipulagningu á ræðutímanum, einhliða. Ég tel eðlilegt að gera aðrar breytingar samhliða, að stjórnarandstæðingar fái meiri aðkomu að formennsku í nefndum, að settir verði einhvers konar hemlar í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu, að knýja á um hana af minni hluta þings og hugsanlega að kæla mál niður með því að stjórnarandstaðan geti farið fram á og krafist frestunar á milli umræðna í umdeildum málum. Og svo hugsanlega líka að það þyrfti aukinn meiri hluta til að leggja til við þingforseta heildarræðutíma í 2. og 3. umr. mála sem væru að koma frá nefndum.

Ég vil að lokum þakka fyrir jákvæð viðbrögð. Ég tel af þessum viðbrögðum, þó með þeim fyrirvara að lítið hefur heyrst frá einum stjórnmálaflokki í umræðunni, Sjálfstæðisflokknum, að þingmenn upplifi nú þannig tíma að menn séu tilbúnir til að skoða verulega breytt vinnubrögð í þinginu. Ég er ekki að segja að málið verði samþykkt, ég átta mig ekki alveg á því. Kannski eru þeir hv. þingmenn sem hér hafa ekki talað mjög ósammála þessu. Ég ætla að leyfa mér að lifa í þeirri von að svo sé ekki heldur vilji þeir kannski íhuga málið. Ég finn reyndar, virðulegi forseti, að á þá sem hafa verið mjög andsnúnir umræðu um þetta atriði, umræðutímann, hafa runnið tvær grímur upp á síðkastið vegna reynslu sinnar hér inni og kröfu um að við færum okkur nær nútímanum í öllum vinnubrögðum á Alþingi. Ég tel að þetta mál sé mjög brýnt í því sambandi, að kalla á nútímalegri vinnubrögð í þinginu og fara út úr þeirri umræðuhefð sem hér hefur ríkt.