139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[12:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það frumvarp sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson mælir fyrir um, breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, frá 1993, er samhljóða því sem flutt var á síðasta vetri af hv. þingmanni og var ekki afgreitt þá. Eins og hv. þingmaður rakti lýtur frumvarpið að því að breyta og fella út ákveðnar lagaheimildir í lögum þessum sem eru að einhverju leyti börn síns tíma og að margra mati eru aðstæður breyttar og því sé alveg ástæða til að endurskoða fyrirkomulag á því.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni lýtur meginefni frumvarpsins að tilfærslum innan greinarinnar sjálfrar, ekki beinni aðkomu ríkisins að stuðningi við framleiðsluna sem slíka, heldur innan greinarinnar sjálfrar. Að hún vilji sjálf fá auknar lagaheimildir til þess að stýra því sjálf en ekki vera bundin af þeim lögum sem um er að ræða, þess vegna sé meginkaflinn felldur niður.

Mér finnst alveg sjálfsagt að þessi mál séu skoðuð og farið yfir þau og eins og hv. þingmaður benti á eru þarna atriði sem menn eru sammála um að megi betur fara. Ég heiti stuðningi ráðuneytisins við starf þingsins í þeim efnum eftir því sem óskað verður eftir.

Ég vil þó minna á að 19. gr., greinin sem um er að ræða að verði felld niður, lýtur jú að fyrst og fremst að innra skipulagi og að hægt sé að vera með millifærslu og verðmiðlunargjald innan greinarinnar til þess að jafna mun sem getur verið á milli einstakra framleiðenda. Eins og segir í 19. gr., með leyfi forseta:

„Tekjum af verðmiðlunargjaldi skal m.a. varið þannig:

a. til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöðvum í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna og til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum afurðum, sbr. 60. gr.,

b. til að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva,

c. til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað.“

Þetta laut að innra jöfnunarkerfi. En nú hefur verið breytt um skipulag þannig að margar af þessum minni einingum, framleiðslustöðvum, hafa verið … (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. ráðherra afsökunar, en er hæstv. ráðherra í ræðu eða óskaði hann eftir andsvari við ræðu?)

Frú forseti, það var óskað eftir andsvari. Svo sá ég að ég var settur á ræðutíma þannig að þá hugsaði ég að ég skyldi bara halda stutta ræðu. En hvað vill forseti að ég geri? Ljúki ræði á einni mínútu?

(Forseti (RR): Forseti óskar eftir að hæstv. ráðherra verði í andsvari og gefur honum þá og nú tvær mínútur til þess.)

Takk fyrir, frú forseti.

Já, við höfum þetta andsvar. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um að standa vörð um möguleika atvinnugreinarinnar til þess að standa félagslega að því sem nauðsynlegt er að gera á félagslegum grunni en jafnframt að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar eða að breyta til varðandi þau atriði sem hér er kveðið á um ef það er að bestu manna yfirsýn nauðsynlegt og rétt.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að ráðuneytið mun vera tilbúið til þess að koma þarna að máli, gefa upplýsingar og taka þátt í því eftir því sem óskað er eftir af hálfu þingsins þegar málið er komið til nefndar.