139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[12:58]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu sambandi og eykst nú mjög bjartsýni mín á að málið fái jákvæða afgreiðslu frá Alþingi nú á haustdögum.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra vakti athygli á að 19. gr. sem lýtur að verðmiðlunargjaldinu gerir ráð fyrir því að það verði notað að einhverju leyti til að standa undir jöfnun á flutningskostnaði hjá afurðastöðvum. Við vitum hins vegar að umhverfið er orðið mjög breytt frá því þegar þessi lög voru sett upprunalega. Nú er þetta meira og minna eitt félag sem sér um framleiðslu og dreifingu á afurðum mjólkuriðnaðarins og verðmiðlunin til þessa fer í raun fram innan þess fyrirtækis og má kannski segja að það sé núna orðið dauður lagabókstafur í þeim skilningi.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er einmitt það sem hæstv. ráðherra sagði, að skilyrði fyrir samkeppni verði bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum verði gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Það held ég að sé ákaflega mikilvægt. Þar veit ég að við erum sammála við hæstv. ráðherra. Okkur greinir stundum á eins og allir vita, en að þessu leyti veit ég að við erum sammála og þess vegna fagna ég góðum viðtökum hans við þessu frumvarpi.