139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

staða Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi.

[14:06]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar sem mikilvægt er að taka til umfjöllunar. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að álagið verður gríðarlegt á dómskerfið vegna málaferla sem upp koma og eru fyrirsjáanleg vegna efnahagshrunsins. Nú hefur það bæst við að fyrir landsdóm mun koma mál sem tengist ráðherraábyrgð á tilurð þessa efnahagshruns.

Ég hef átt fund með forseta landsdóms sem einnig er forseti Hæstaréttar þar sem þau atriði sem hv. þingmaður reifar hér hafa verið rædd og varða starf landsdóms. Hef ég óskað eftir skriflegri skýrslu frá forseta landsdómsins um það efni, annars vegar hvað snertir hugsanlegar lagabreytingar sem þarf að gera á lögum til að framfylgja ákvörðun Alþingis og hins vegar um fjárhagsramma vegna starfa landsdómsins. Þá vil ég geta þess að ritari landsdóms hefur átt fundi með embættismönnum ráðuneytisins til undirbúnings tillögugerð um fjárveitingar vegna starfa landsdóms sem óhjákvæmilega mun taka mið af því með hvaða hætti landsdómur skipuleggur störf sín og hversu lengi dómurinn situr. Um síðasttalda atriðið er nokkur óvissa enda óljóst hvenær dómurinn mun taka til starfa í ljósi þess að saksóknari og verjandi eiga eftir að fara yfir gögn málsins. Því er óvíst hvenær aðalmeðferð málsins muni hefjast og hversu langan tíma hún muni taka. Af þessu leiðir að það er nokkur óvissa um hversu langan tíma þeir fimm hæstaréttardómarar sem sitja í landsdómi verða frá störfum í Hæstarétti vegna landsdómsstarfanna og hvaða áhrif landsdómur kann að hafa á störf Hæstaréttar. Þetta verður að hafa í huga við mat á stöðu Hæstaréttar í ljósi málaferla fyrir landsdómi, en á þessu stigi er óljóst í hve langan tíma hæstaréttardómarar verða bundnir við störf í landsdómi. Það er hins vegar ljóst að þegar dregur nær aðalmeðferð fyrir landsdómi og meðan á henni stendur verður nauðsynlegt að setja hæstaréttardómara tímabundið í stað þeirra sem taka sæti í landsdómi.

Varðandi bankahrunið og afleiðingar þess samþykkti ríkisstjórnin í maí sl. að unnið skyldi að því að meta nauðsynlegar fjárveitingar til að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna, einkum Hæstaréttar í ljósi aukins málafjölda vegna bankahrunsins, og stuðla þannig að tiltrú almennings á starfsemi þeirra. Ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis stýra þessari vinnu. Í tengslum við vinnu ráðuneytisstjóranna hefur dómsmálaráðuneytið undanfarna mánuði unnið náið með fulltrúum Hæstaréttar Íslands og dómstólaráðs að því að greina og skipuleggja hvernig bregðast megi með heildstæðum hætti við því mikla viðbótarálagi sem dómstólar standa frammi fyrir vegna bankahrunsins og tryggja að menn fái framgang með mál sín hjá dómstólum og fái réttláta málsmeðferð. Fulltrúar Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands taka þátt í þessu samráði. Er nú unnið að mótun heildstæðra tillagna um úrbætur innan dómskerfisins sem vonandi liggja fyrir innan skamms. Ótímabært er því að ræða einstakar tillögur sem munu koma fram en þó er óhætt að ganga út frá því að meðal annars þarf að fjölga tímabundið hæstaréttar- og héraðsdómurum á næstu missirum, bæði vegna álags sem fylgir í kjölfar bankahrunsins vegna mála sem þaðan eru upp sprottin og síðan vegna ákvörðunar Alþingis um að kalla saman landsdóm.