139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

staða Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi.

[14:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og rakið var hér í upphafi stöndum við frammi fyrir ákveðinni stöðu eftir ákvörðun Alþingis í síðustu viku, hvaða skoðun sem við höfum á henni. Landsdómur mun taka til starfa og það kemur til með að hafa ákveðnar afleiðingar. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson rakti ágætlega hvað kann að gerast og hvað líklegt er að gerist og því má bæta við að í eina dæminu frá nágrannalöndum sem við getum horft til sem einhvers fordæmis, í máli danska þjóðþingsins gegn Erik Ninn-Hansen fyrir 15 árum, tók málsmeðferð hjá landsdómi tvö ár. (Gripið fram í.)

Nú kunna að vera á því ýmsar skýringar en hins vegar verður að benda á að í máli Eriks Ninn-Hansens lágu töluvert meiri upplýsingar og ítarlegri skoðun á borðinu þegar ákvörðun um ákæru var tekin en hér, enda hafði málið verið í tvö og hálft ár hjá rannsóknarrétti, „undersøgelsesret“, með leyfi forseta, sem hafði skoðað málið og þar áður var það hjá umboðsmanni danska þjóðþingsins. Málið var afmarkaðra, búið að skoða það betur áður en það kom til landsdóms þannig að þessi tveggja ára tími er hugsanlega nokkuð sem við þurfum að horfast í augu við þó að ég viðurkenni óvissuþættina sem hæstv. dómsmálaráðherra vék að hér áðan.

Ég lýsi fögnuði yfir því að hæstv. dómsmálaráðherra horfist greinilega í augu við þá stöðu sem uppi er og þar á meðal það stóraukna álag sem búast má við á dómskerfið í heild, bæði héraðsdómstóla og Hæstarétt, að viðbættu auðvitað því álagi sem fylgir því að reyndustu dómararnir munu hverfa í landsdóm, (Forseti hringir.) en ég skora á hæstv. ráðherra að fylgja því eftir, ekki síst þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga vegna þess að ekki sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) sem nú liggur fyrir að tekið sé tillit til þessa fyrirsjáanlega álags.