139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

staða Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi.

[14:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra fyrir þau svör sem hann veitti. Hann upplýsti þingið um það að hann sæi fyrir sér að settir yrðu nýir hæstaréttardómarar í stað þeirra sem munu halda til dómstarfa í landsdómi þegar dómurinn verður kallaður saman. Það blasir auðvitað við að það þarf að gera. Það er stórmál að fimm af níu hæstaréttardómurum þurfi að hverfa af vettvangi Hæstaréttar þegar landsdómur verður kallaður saman, ég tala nú ekki um þegar dómskerfið er að springa og gríðarlega mikilvæg þjóðhagsleg mál liggja fyrir dómstólunum eins og ég rakti áðan. Það er t.d. verið að reyna að hnekkja neyðarlögunum, það er óvissa um fordæmisgildi dóma sem varða ólögmæt gengistryggð lán o.s.frv.

Ég lít þannig á að hæstv. ráðherra horfist í augu við alvarleika málsins, geri sér grein fyrir því að grípa þurfi til aðgerða en ræðuna sem hæstv. ráðherra hélt hér höfum við í sjálfu sér heyrt áður. Menn hafa hvað eftir annað talað um að það sé mikilvægt að efla og styrkja dómskerfið í heild sinni en lítið hefur sést af tillögum í þeim efnum.

Ég vil að lokum segja að ég vonast til þess að hæstv. ráðherra upplýsi þingið um það með hvaða hætti hann hyggist skipa þessa dómara, a.m.k. okkur sem sýnum málinu áhuga og viljum ræða það við ráðherrann í utandagskrárumræðu. (Gripið fram í.) Ég furða mig á því að fulltrúar Samfylkingarinnar telji málefni Hæstaréttar við þessar aðstæður ekki standa undir því að boðað sé til utandagskrárumræðu á Alþingi um þá stöðu sem upp er komin. Í því felst ekkert annað en lítilsvirðing (Forseti hringir.) gagnvart dómskerfinu og Hæstarétti Íslands. (Gripið fram í.)

(Forseti (UBK): Ég bið um hljóð í salinn.)