139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna hefur verið eitt af meginviðfangsefnum stjórnvalda frá hruni. Fyrst var gripið til bráðaaðgerða eins og frystingar lána, stöðvunar á nauðungarsölum, greiðslujöfnunar verðtryggðra og gengisbundinna lána og hækkunar vaxtabóta. Síðan hafa stjórnvöld breytt ýmsum lögum til að tryggja betur rétt skuldara og sett hafa verið lög um frjálsa samninga bankanna til skuldaaðlögunar fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við hrun voru ekki til lög um greiðsluaðlögun þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi í gegnum árin margoft flutt frumvörp í þá veru.

Vorið 2009 tóku slík lög loks gildi og nú í vor voru þau endursamin til að þjóna betur markmiðum sínum sem eru að tryggja verst stöddu heimilunum leið út úr skuldafangelsi. Félags- og tryggingamálanefnd hefur verið mjög samhent og unnið sem einn maður. Ég vil þakka stjórnarandstöðunni fyrir málefnalegt samstarf og alla þá vinnu sem þau hafa lagt af mörkum. Nú hefjum við enn eina hrinuna og erum búin að kalla eftir upplýsingum frá bönkunum til að fá frekari upplýsingar um stöðu viðskiptavina þeirra og hvernig stjórnvöld geti létt undir með bönkunum í störfum þeirra við skuldaaðlögun. Við munum fylgjast náið með störfum þeirra á reglulegum fundum. Lánastofnanir þurfa að setja mun meiri kraft í þá vinnu og það er okkar að halda þeim við efnið og skaffa þeim þau tæki sem nauðsynleg eru.

Nú erum við að komast inn í þriðja fasann. Við erum komin með flest tæki og tól, við vitum hvaða bresti þarf að berja í og nú þurfa stjórnmálamenn og bankamenn að hafa hugrekki til að klára verkefnið. Það munu ekki allir halda húsnæði sínu þó að samfélagið og heimilin hafi hag af því að sem flestir geti búið áfram í sínu húsnæði.

Í grein Gunnlaugs Jónassonar í Morgunblaðinu í dag eru tillögur um kaupleigukerfi sem ég tel að rími ágætlega við hugmyndir sem voru lagðar hér fram í vor og við eigum að taka mið af og byrja að vinna að. Húsnæðisöryggi verðum við að tryggja.

Frá upphafi hefur verið stefnt að því að laga greiðslugetu heimila að skuldastöðu. Þetta hefur krafist breyttra viðhorfa og vinnulags hjá bönkunum og stjórnvöldum. Við höfum tekist á við endurreisn bankakerfisins, flöskuhálsa vegna gengisbundinna lána, smíða hefur þurft ný lög og láta reyna á virkni þeirra og breyta lögum. Við eigum enn ýmislegt ógert en við erum mjög langt á veg komin.

Við erum öll á sama báti og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma öllum heimilum í landinu heilum og höldnum út úr þessum hremmingum. Við þurfum að tryggja að tiltækir fjármunir nýtist þeim sem eiga í mestum vanda. Sérstaklega þurfum við að líta til þeirra sem keyptu fyrstu eign í húsnæðisbólunni, tekjulægri hópa og vanda vegna sjálfsskuldarábyrgðar fólks í fyrirtækjarekstri. Þessar lausnir eru ekki kerfislausnir heldur skynsamleg leið fyrir samfélag sem hefur takmarkaða fjármuni að spila úr.

Við erum nú á mjög erfiðum tímamótum en ég hafna öllum úrtöluröddum og hvet allan þingheim að leggjast á árarnar og blása þjóðinni von í brjóst. Það gerum við með samstöðu og áræðni í störfum okkar.