139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:28]
Horfa

Baldvin Jónsson (Hr):

Frú forseti. Á Alþingi liggur fyrir fjöldi brýnna mála sem þingið þarf svo sannarlega að takast á við, fjöldi mála sem koma verður í farveg og framkvæma og hvetja með því íslenskt hagkerfi af stað á ný. Þó er ekkert mál brýnna en að bregðast samstundis við skuldavanda heimilanna. Í september einum voru 400 heimili sett á uppboð. Um 260 uppboð eru fyrirhuguð til viðbótar í október. Þarna erum við að tala um 660 fjölskyldur sem eru væntanlega núna að leita sér að samastað til að eyða næstu jólum á. Þetta eru heimili fólks sem að stærstum hluta fór ekki illa með fé sitt og var ekki að offjárfesta eða eyða langt umfram fjárráð. Þetta eru heimili fólks sem tók flestallt yfirvegaða ákvörðun um fasteignakaup fyrir fjölskyldu sína, byggða á tekjum fram að þeim tíma og ráðleggingum fagfólks innan bankanna.

Nú er áætlað að 73.000 heimili verði eignalaus árið 2011. Það eru ríflega 60% heimila landsins. Ríkisstjórnin lætur nú í fjölmiðlum sem hún vilji enn á ný skoða tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég fagna því. Tillögur þeirra eru algjörlega í anda þess sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa talað fyrir frá upphafi, fyllilega í anda samþykkta landsfunda bæði Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa talað fyrir tafarlausri stöðvun uppboða á fasteignum sem hvíla á veð vegna ólöglegra lána. Við höfum talað fyrir bakfærslu vísitölu til upphafs árs 2008 til leiðréttingar á höfuðstóli verðtryggðra lána. Ég styð heils hugar fram komnar tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um flatar afskriftir, 4% verðbólguþak og að gengistryggð lán verði jafngild verðtryggðum lánum frá 1. janúar 2008.

Á undanförnum mánuðum, á sama tíma og fjöldi fjölskyldna hefur verið borinn út af heimilum sínum af ráðamönnum þjóðarinnar, hefur þingið velkst með þetta mál fram og til baka í einhvers konar tilgerð þar sem fólk er látið halda að vilji sé til verka á sama tíma og augljóst má vera að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mun ekki leyfa það. Búið er að sækja sérfræðiálit úr fjölda brunna, álit sem flest hver virðast styðja flatan niðurskurð komi þau frá óhlutdrægum ráðgjöfum. Allur þessi fjöldi álita hefur engu breytt fyrir ríkisstjórnina. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir áfram þvert nei.

Fyrir hvern er þessi blekkingaleikur settur á svið? Sé raunverulegur vilji hjá ríkisstjórninni til að gera eitthvað í málefnum þeirra hundruða heimila sem sjá fram á að eyða komandi jólum á götunni verður ríkisstjórnin að sanna það með aðgerðum samstundis. Ekki bráðum, ekki eftir tugi funda með háðum álitsgjöfum, nei, núna strax. Niðurstöður skoðanakannana liggja fyrir þar sem 75% landsmanna lýsa sig viljug til að fara í flatan niðurskurð. Niðurstöður skoðanakannana liggja fyrir þar sem 80% landsmanna vilja afnám verðtryggingar. Efist ríkisstjórnin um að meiri hluti landsmanna sé fyrir því að ganga til almennra aðgerða, efist ríkisstjórnin um að þær aðgerðir muni skila þjóðinni strax auknum tekjum og hagvexti við að skapa þessum fjölskyldum svigrúm til að kaupa sér nauðsynjar og sinna lágmarksþörfum sínum, efist ríkisstjórnin um fylgi landsmanna við að bjarga heimilunum, vil ég benda þeim á það að til er einföld, lýðræðisleg lausn á valkvíða hennar. Ég mæli með því að ríkisstjórnin setji málið samstundis til þjóðaratkvæðis.