139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

18. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja sem er að finna á þskj. 18 og er 18. mál þingsins.

Frumvarp þetta er lagt fram í tíunda sinn. Síðast var það lagt fram á 136. löggjafarþingi og var því þá vísað til utanríkismálanefndar sem sendi frumvarpið til umsagnar. Nefndinni bárust nokkrar umsagnir um málið en það var þó ekki afgreitt frá nefndinni. Engin umræða fór heldur fram um umsagnirnar eða einstök atriði í þeim að því er mér er kunnugt um og því er frumvarpið flutt fram óbreytt nú í því augnamiði að fá fram umsagnir á nýjan leik og tryggja að fram fari málefnaleg umræða um efni frumvarpsins í viðkomandi þingnefnd. Það er þó rétt að geta þess að í þeim umsögnum sem bárust við frumvarpið síðast er að finna nokkrar athugasemdir sem ég mun e.t.v. koma betur inn á síðar.

Í gegnum tíðina hefur frumvarpið notið stuðnings þingmanna allra hinna rótgrónu flokka nema Sjálfstæðisflokksins og var engin undantekning á því á 136. löggjafarþingi þegar þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar, Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins fluttu málið á þingi. Þá voru flutningsmenn, auk þess sem hér stendur, Steingrímur J. Sigfússon, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Höskuldur Þórhallsson, Kristinn H. Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Álfheiður Ingadóttir og Helgi Hjörvar. Að þessu sinni eru flutningsmenn frumvarpsins auk mín hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Baldvin Jónsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Ólafur Þór Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Þráinn Bertelsson.

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka segir meðal annars í umfjöllun um utanríkismál, með leyfi forseta:

„Málefni norðurslóða verða forgangsmál og viðfangsefni svæðisins þarf að leysa á grundvelli gildandi alþjóðasamninga, alþjóðastofnana og svæðasamstarfs. Áhersla verði lögð á að vernda viðkvæmt lífríki svæðisins, sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukið samstarf á Norðurlöndum um viðbúnað gegn umhverfisvá og slysum á norðurhöfum, leit og björgun. Áfram verði unnið að mótun öryggisstefnu Íslands á grundvelli eigin hættumats í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir og önnur bandalagsríki. Varnarmálastofnun verði endurskoðuð, sem og loftrýmisgæsla, í samræmi við áherslur í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland. Unnið verði á grundvelli víðtæks öryggishugtaks og áhersla lögð á sameiginlegt alþjóðlegt öryggi. Ísland verður friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld munu beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.“

Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt lög um niðurlagningu Varnarmálastofnunar. Þá hafa málefni norðurslóða fengið aukið vægi í umræðum og stefnuyfirlýsingu stjórnvalda eins og glöggt kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál síðastliðið vor á þskj. 1070, 611. mál. Full ástæða er til að vekja athygli á mikilvægi friðlýsingar Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og er frumvarp þetta nú endurflutt í því augnamiði.

Á umliðnum árum hafa æ fleiri kallað á friðlýsingu norðurpólsins fyrir kjarnorkuvopnum. Til marks um það eru yfirlýsingar hinnar kanadísku Pugwash-samtaka friðarsinnaðra vísindamanna og hvatning japanska friðarfrömuðarins Daisaku Ikeda en bæði Pugwash og Ikeda eru handhafar friðarverðlauna Nóbels. Verði af friðlýsingunni eykur það enn á mikilvægi þess að Ísland geri slíkt hið sama enda færðust flutningaleiðir kjarnorkuvopna þá í einhverjum tilvikum nær landinu en ella.

Eins og fram kemur standa flutningsmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum að þessu frumvarpi. Það er ekki í fyrsta skipti sem frumvarp þessarar gerðar er flutt á Alþingi, eins og áður segir. Þetta mun vera tíunda atlagan að því að koma efni þess á dagskrá. Á 136. löggjafarþingi komst málið til nefndar en var ekki afgreitt úr nefndinni eins og áður greindi en það mun hafa verið í eina skiptið sem málið komst þó svo langt í starfi þingsins. Það er mér þess vegna sérstök ánægja að fá að mæla fyrir þessu frumvarpi strax í upphafi þings því að það veit þá a.m.k. á það að málið kemur til umfjöllunar í nefnd og fær þar faglega yfirferð.

Frumvarpið sem hér er lagt fram gerir ráð fyrir því að Ísland verði friðlýst svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði samkvæmt frumvarpinu og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs. Markmið laga þessara er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, sem er að sjálfsögðu mikilvægt, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Í frumvarpinu er sömuleiðis skilgreint hugtakið kjarnorkuvopn eins og það er notað í frumvarpinu en það eru hvers kyns vopn eða sprengjur þar sem kjarnorka er leyst úr læðingi við notkun, hvort sem það eru samsett eða ósamsett að nokkru eða öllu leyti, en tekur ekki til flutningstækja eða útbúnaðar sem koma á sprengjum eða vopnum í skotmark ef tækið eða búnaðinn má skilja frá sprengjunni eða vopninu. Þörfin fyrir að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum hefur því miður fremur aukist en hitt vegna atburða á alþjóðavettvangi. Má þar nefna áhuga á þróun kjarnorkuvopna í Íran og Norður-Kóreu og þá staðreynd að kjarnorkuveldin hunsa algerlega þau ákvæði samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna NTP-samningsins svonefnda sem skylda þau til kjarnorkuafvopnunar.

Rétt er að geta þess að núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi hafa lýst vilja sínum til að draga úr kjarnorkuvopnaeign sinni og það eru að sönnu nýir straumar í þessum efnum, alla vega hjá þessum ríkjum. Brotthvarf bandaríska hersins og lokun herstöðvarinnar hefur einnig gert það að verkum að auðveldara ætti að vera að friðlýsa landið fyrir kjarnorkuvopnum. Það er von flutningsmanna að Alþingi geti nú sameinast um að nýta þetta tækifæri og lögbinda þann yfirlýsta vilja stjórnvalda að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi.

Yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga hér á landi hefur lýst því yfir að landsvæði þeirra skuli vera friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Af 79 sveitarfélögum hafa 74 þeirra verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum eða 94% og aðeins tæplega 17 þúsund manns búa utan friðlýsingar sem þýðir að um 95% Íslendinga eru í friðlýstum sveitarfélögum. Ætla má að þau sveitarfélög sem eftir standa, sem eru Reykjanesbær, Vogar, Sandgerði, Skútustaðahreppur, Grímsnes og Grafningshreppur, hafi enn minni ástæðu til að friðlýsa ekki landsvæði sín nú þegar bandaríski herinn er farinn af landi brott. Þó er rétt að minna á að yfirlýsingar á sveitarstjórnarstigi hafa auðvitað ekkert lagagildi og almennt veikari stöðu en kjarnorkufriðlýsing landsins alls, lofthelginnar og efnahagslögsögunnar sem með frumvarpinu yrði bundin í lög. En samþykktir þessara sveitarfélaga má líta á sem afgerandi yfirlýsingu frá sveitarfélögum landsins um að friðlýsa beri landið allt og styrkja þannig ákvarðanir sveitarfélaganna. Eftir brottför hersins ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að þessi fyrirliggjandi vilji yfirgnæfandi meiri hluta sveitarstjórna verði lögfestur og gildi fyrir landið allt. Því fylgdi einnig að afla alþjóðlegrar viðurkenningar annarra ríkja og alþjóðasamtaka, ekki síst kjarnorkuveldanna sjálfra á því að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði.

Reykjanesbær, sem er langstærsta sveitarfélagið af þeim fimm sem ekki eru þegar friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum, lýsti í bókun árið 2008 því sjónarmiði að utanríkisráðherra og ríkisstjórn verði að skera úr um friðlýsingu sveitarfélagsins en ekki sveitarfélagið sjálft. Það eykur enn á mikilvægi þess að Alþingi taki málið fyrir eins og lagt er til í þessu frumvarpi.

Þróun mála í friðlýsingu annarra landa hefur líka verið friðelskandi fólki mjög í hag undanfarin ár. Í reynd þarf að fara norður fyrir miðbaug til að finna land sem ekki hefur skrifað undir samning um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Mið- og Suður-Ameríka, Suðaustur-Asía, Eyjaálfa og eyjarnar í Suður-Kyrrahafi og Suðurskautslandið eru öll svæði sem hafa verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Árið 1996 skrifuðu öll Afríkuríkin undir friðlýsingu álfunnar og 20 ríki álfunnar hafa staðfest samninginn þótt enn vanti átta staðfestingar upp á að hann taki gildi. Svipað er uppi á teningnum í Mið-Asíu þar sem þau ánægjulegu tíðindi áttu sér stað fyrir fáum árum að fimm lönd skrifuðu undir slíkan samning og tvö þeirra, Kirgisistan og Úsbekistan, hafa þegar staðfest samninginn.

Þá hafa Mongólar tekið það upp á sitt einsdæmi að lýsa yfir friðlýsingu landsins fyrir kjarnorkuvopnum við talsverðan fögnuð annarra ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur nú tækifæri til að fylgja t.d. þessu ánægjulega fordæmi á alþjóðavettvangi. Slík friðlýsing gæti þar að auki verið fyrsta skrefið í friðlýsingu Norðurlanda, sem lengi hefur verið á dagskrá friðarsinna, en ekki hlotið brautargengi enn sem komið er.

Mig langar, virðulegur forseti, að vísa og vitna m.a. í dóm Alþjóðadómstólsins í Haag sem fjallar um beitingu kjarnorkuvopna og ógnun þess. Alþjóðadómstóllinn í Haag komst að þeirri niðurstöðu að ekki aðeins bryti notkun kjarnorkuvopna gegn alþjóðalögum, heldur líka það að ógna eða hóta að beita þeim gegn öðru ríki. Rökstuðningur dómstólsins er sá að til þess að vopn geti talist lögmætt verði beiting þess að beinast að hernaðarlegum skotmörkum eingöngu en ekki óbreyttum borgurum. Eðli kjarnorkuvopna sé hins vegar þannig að beiting þeirra muni ávallt bitna á óbreyttum borgurum, auk þess sem þau hafa neikvæð umhverfisáhrif sem leiði til enn meiri skaða óbreyttra borgara. Sams konar rök eru færð á grundvelli þess að ávallt beri að virða hlutlaus svæði en kjarnorkuvopn séu þess eðlis að aldrei sé hægt að útiloka að beiting þeirra bitni líka á íbúum og umhverfi hlutlausra svæða. Að lokum telur Alþjóðadómstóllinn að þjóðum heims sé skylt að semja um algjöra kjarnorkuafvopnun undir ströngu alþjóðlegu eftirliti.

Að sjálfsögðu má spyrja sig þeirrar spurningar hvaða gildi friðlýsing af því tagi sem hér er lagt til hafi og hvaða erindi hún eigi í samfélagsumræðuna í dag. Ég tel að þó að við Íslendingar séum að glíma við margs konar vanda í okkar efnahagsmálum og samfélagsmálum sem rekja má til efnahagshrunsins breyti það ekki því að við þurfum líka að sinna margvíslegum öðrum málefnum. Utanríkismál, alþjóðamál, samskipti okkar á þeim vettvangi skipta líka máli og eiga að sjálfsögðu skilið að fá umfjöllun og umræðu.

Það er ekki ýkja langt síðan tveir kjarnorkuknúnir kafbátar frá Bretlandi og Frakklandi rákust saman hér sunnar í Atlantshafinu. Íslensk stjórnvöld fengu ekki upplýsingar um þann atburð fyrr en mörgum vikum síðar. Það minnir okkur svo sannarlega á hvað við erum háð hreinu umhverfi í hafinu í kringum okkur. Þjóð sem byggir svo mikið á auðlindum sjávar á gríðarlega mikið undir því að ekki verði nein slys sem setji þær auðlindir og nýtingu þeirra í mikla hættu. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef kjarnorkuslys yrði á hafsvæðunum í kringum Ísland hvað þetta varðar. Þess vegna er þetta mikilvægt mál fyrir land og þjóð, jafnvel og kannski ekki síst á tímum eins og við lifum á um þessar mundir þegar við eigum vissulega undir högg að sækja í efnahagslegu tilliti og megum ekki við miklum áföllum í viðbót. Þess vegna held ég að það sé fullt tilefni til að taka þessi mál til umræðu á vettvangi Alþingis og í samfélaginu.

Ég gat um það að á 136. löggjafarþingi hefði þetta mál eða sambærilegt komið til meðferðar hjá utanríkismálanefnd og verið leitað umsagna allnokkurra aðila. Nokkrar umsagnir bárust og mun ég í stuttu máli geta þess helsta sem fram kom í þeim.

Í fyrsta lagi barst umsögn frá Íslandsdeild Amnesty International þar sem kemur fram að mannréttindasamtökin Amnesty International hafi árið 2003 tekið ákvörðun um að andmæla notkun, vörslu, framleiðslu og flutningi á kjarnavopnum og að samtökin hafi mótmælt notkun allra handahófskenndra vopna svo sem jarðsprengna og klasasprengna, og kjarnavopn falla líka undir þá skilgreiningu, en slík vopn þyrmi engum sem fyrir þeim verða eða þá geislunin frá þeim kemur, eins og segir í umsögn samtakanna. Íslandsdeild Amnesty International fagnar því framkomnu frumvarpi sem hafi það að markmiði að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Umsögn barst frá Landhelgisgæslunni þar sem hún gerir einkum og sér í lagi athugasemd við eina gein í frumvarpinu, 10. gr. frumvarpsins, en þar segir að þrátt fyrir ákvæði 6. og 8. gr. og fyrri málsgreinar 9. gr. þessara laga sé heimilt að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð eða gegnumferð farartækja án óþarfaviðdvalar í eða á sjó eða í lofti á alþjóðlegum leiðum að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum.

Síðan segir í frumvarpinu:

„Slíkar undanþágur geta þó aldrei tekið til svæðisins innan 12 sjómílna marka og lofthelginnar þar upp af.“

Landhelgisgæslan gerir athugasemd við þetta ákvæði fyrst og fremst með þeim rökstuðningi að það geti verið hættulegt ef skip með geislavirkan úrgang fær ekki að koma inn fyrir 12 mílna lögsöguna í neyð ef um bilun er að ræða eða slæmt veður. Hér er auðvitað um að ræða ákveðin öryggissjónarmið sem mér finnst eðlilegt að séu skoðuð frekar í vinnu nefndarinnar til þess að kanna hvort orða þurfi undanþágurnar öðruvísi ef veruleg hætta er á að öryggissjónarmiðum sé stefnt í voða.

Sömuleiðis bendir Landhelgisgæslan á mikilvægi þess að lög af þessum toga fari ekki í bága við alþjóðasamninga um öryggi mannslífa á hafinu, hafréttarsamninginn og alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum og fleiri alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, m.a. á sviði flugmála. Allt eru þetta eðlilegar athugasemdir sem þingnefnd mundi að sjálfsögðu taka til frekari skoðunar.

Utanríkisráðuneytið veitti líka umsögn um frumvarpið og bendir þá m.a. á að allmörg þeirra ákvæða sem er að finna í þessu frumvarpi hafi nú þegar verið lögfest eða sé að finna í alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að. Þar eru m.a. talin upp lög um framkvæmd samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, sem banna losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs, lög um geislavarnir, hegningarlög, samningurinn um bann við útbreiðslu kjarnavopna frá 1. júlí 1968, svokallaður NPT-samningur. Það má þá í raun segja að ef búið er að lögfesta ýmis ákvæði nú þegar af þessum toga hér og þar í lögum eða alþjóðasamningum ætti fátt að vera á móti því að festa slíkt í eina heildarlöggjöf á þessu sviði að mínu viti.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins er líka bent á að sú stefna íslenskra stjórnvalda að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna hér á landi sé vel kunn og svo hafi verið um áratugaskeið. Er þar bent á að í ágúst 1980 hafi Ólafur Jóhannesson, þáverandi utanríkisráðherra, lýst því yfir að bannið ætti við um varanlega sem og tímabundna staðsetningu kjarnavopna og jafnframt flutninga kjarnavopna um Keflavíkurflugvöll og lofthelgi Íslands. Þar kemur einnig fram að Geir Hallgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafi útfært þessa stefnu enn frekar þegar hann lýsti því yfir í apríl 1985 að bannið ætti einnig við um herskip sem kæmu í hafnir hérlendis eða sigldu um íslenska lögsögu.

Þá er rétt að geta þess að einmitt á þeim tíma, á 107. löggjafarþingi, nánar tiltekið 23. maí 1985, áréttaði Alþingi stefnu Íslands varðandi bann við staðsetningu kjarnavopna á Íslandi með þingsályktun sem er að finna á þskj. 922, 496. mál á 107. löggjafarþingi, en það er tillaga til þingsályktunar um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem utanríkismálanefnd flutti á þeim tíma og var samþykkt síðan á þinginu óbreytt.

Þar segir m.a. í þeirri ályktun Alþingis, með leyfi forseta:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því …“

Ég tel mikilvægt að horfa til þess að Alþingi hefur í raun með þingsályktun markað þessa stefnu og henni hefur ítrekað verið lýst yfir af utanríkisráðherrum Íslands. Þá má spyrja: Er nauðsynlegt að gera nokkuð meira í þeim efnum? Dugar ekki þessi ályktun? Þarf að setja sérstök lög? Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að fara þá leið að setja sérstök lög í þessu efni. Það er alveg augljóst mál og öllum kunnugt að lög hafa auðvitað sterkari stöðu en þingsályktun og þess vegna held ég að það sé rétt að ganga alla leið og lögfesta þessa stefnu eins og hún hefur verið mótuð í gegnum árin og á m.a. stoð í nefndri þingsályktun.

Ég vil geta þess að í einhverjum umsagnanna, m.a. í umsögn sem barst frá Varnarmálastofnun, segir, með leyfi forseta:

„Stefna Íslands í málum er varða staðsetningu kjarnavopna hér á landi eða flutning þeirra um íslenska lögsögu hefur ekki verið lögfest enda samrýmist það ekki þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu.“

Þá má auðvitað spyrja sig að því hvort þingsályktunartillagan eða stefnuyfirlýsingar utanríkisráðherra í gegnum tíðina og þingsályktunartillagan frá 1985 sem samþykkt var á Alþingi, hafi farið í bága við aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu eða samræmist ekki aðild okkar að bandalaginu. Ég tel að ef þingsályktunartillögur og ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna um þetta efni hafa verið taldar samrýmast aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, hvað svo sem um hana má segja, hljóti lögfesting sömu stefnu að gera það einnig. Ég tel því ekki að sú röksemd fái staðist, en vitaskuld er það þá eitthvað sem þyrfti að skoða frekar í utanríkismálanefnd. En ég fer alla vega ekki í grafgötur með afstöðu mína og hygg ég allra þingmanna í þingflokki mínum hvað varðar afstöðu til aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Við vitum hins vegar að það er ekki útlit fyrir meirihlutavilja hér á hv. Alþingi til þess að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu hvað sem líður skoðun minni í því efni.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins frá síðasta ári er reyndar bent á að einstök ákvæði þessa frumvarps kunni að fara í bága við einhverja alþjóðasamninga sem við eigum aðild að og eru skuldbindandi samkvæmt þjóðarétti. Þar er m.a. bent á hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og bent á að ákvæði um bann við flutningi kjarnorkuvopna á íslensku hafsvæði, komu farartækja sem knúin eru kjarnorku þangað og umferð farartækja sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang, kunni að stangast á við ákvæði hafréttarsamningsins. Hið sama eigi hins vegar ekki við um loftrýmið yfir landhelginni og þar af leiðandi sé væntanlega unnt að banna ferðir loftfara, m.a. loftfara með hættulegan farm, standi vilji þings til þess. Sömuleiðis er þar undirstrikað að samkvæmt hafréttarsamningi hafi strandríki nær ótakmarkaðan fullveldisrétt á innsvæðinu að höfnum meðtöldum, og hafi því heimild til þess að banna för sjávar- eða loftfara á þeim stöðum.

Einnig var bent á það í umfjöllun um geislavirk efni sem tengjast heilbrigðisþjónustu að algjört bann við þeirri litlu losun geislavirkra efna sem eru hér á landi mundu fela í sér alvarlegar hömlur á beitingu þeirra við greiningu og lækningu sjúkdóma og sömuleiðis kynnu einhver ákvæði að snerta reglur EES-samningsins um frjáls vöru- og þjónustuviðskipti.

Síðan segir í umsögn utanríkisráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Yfirlýst stefna stjórnvalda er í megindráttum í samræmi við markmið frumvarpsins. Stefnan hefur m.a. verið mörkuð með það fyrir augum, jafnframt því að samrýmast skuldbindingum okkar gagnvart hafréttarsamningnum og Atlantshafsbandalaginu, að hún uppfylli réttmætar kröfur um öryggi umhverfis og auðlinda. Stefna Íslands í málefnum er varða staðsetningu kjarnavopna hér á landi eða flutning þeirra um íslenska lögsögu hefur ekki verið lögfest enda samrýmist það ekki aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu,“ segir hér einnig í umsögn utanríkisráðuneytisins.

Það var þetta síðasta sem einnig kom fram í umsögn Varnarmálastofnunar sem ég hlýt að draga í efa.

Enn fremur segir í þessari umsögn:

„… sem aðili að samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna NPT styður Ísland útrýmingu allra kjarnavopna. Ísland hefur verið meðflytjandi að tillögum þar að lútandi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.“

Ég held því að það liggi býsna skýrt fyrir að það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda og Alþingis að kjarnorkuvopn verði ekki staðsett hér á landi og þess vegna ætti að geta orðið samstaða um að taka þetta mál til málefnalegrar, efnislegrar umfjöllunar í utanríkismálanefnd og að sjálfsögðu að taka við þeim ábendingum og afhugasemdum sem fram kunna að koma í umsögnum um einstök álitamál þess og gera hugsanlega breytingar á frumvarpinu, verði það talið nauðsynlegt.

Ég tel sem sagt mikilvægt að fram fari umræða um málið og ég vænti þess að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar til umfjöllunar. Miðað við þann breiða hóp sem stendur að flutningi frumvarpsins — það eru fulltrúar úr fjórum flokkum — vonast ég að sjálfsögðu til að málið fái góða og málefnalega umfjöllun og góðar viðtökur á vettvangi nefndarinnar og að við getum áfram unnið að því í sameiningu að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og koma á banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.