139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

25. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég stend hér og tala fyrir þessari þingsályktunartillögu í fjórða sinn. Þetta var, held ég megi segja, mitt fyrsta þingmál sem ég var 1. flutningsmaður að þegar ég kom hingað inn á Alþingi. Ég hef lagt þessa þingsályktunartillögu fram á þremur þingum og þetta er fjórða þingið. Ég held að allt sem ég skrifaði fyrir næstum því tveimur árum standi enn þann dag í dag. Ef eitthvað er hefur vandi fyrirtækja jafnvel skýrst meira nú undanfarna daga.

Það kom fram í skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun, sem nýlega var skilað, að eingöngu 51 fyrirtæki hefur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á grunni þeirra reglna sem samtök fjármálafyrirtækja settu sér og þessara úrræða fjármálafyrirtækjanna. Nefndin bendir þar á nokkur atriði sem hún telur að nauðsynlegt sé að bæta úr til að hægt sé að aðstoða fleiri fyrirtæki. Meðal annars er talað um að það þurfi einhvers konar óháðan aðila til að virðismeta fyrirtæki og nauðsynlegt sé að stjórnvöld og Samtök atvinnurekenda beiti sér fyrir því að slíkur farvegur verði búinn til. Talað er um að mikilvægt sé að þegar verið er að endurskipuleggja fyrirtæki sé miðað við að skuldir þeirra verði þá ekki hærri en 100% af virði fyrirtækja. Þá er náttúrlega mjög mikilvægt að það sé þá óháður aðili sem bæði eigendur fyrirtækisins og bankarnir geta treyst, þ.e. að þeir geti treyst því að verið sé að meta verðmæti fyrirtækisins rétt.

Það er hins vegar afstaða mín að við eigum að vera með svona ráðgjafarstofu, hvort sem við erum í kreppu eða ekki. Hugmyndin varð nefnilega til áður en ég kom inn á þing, áður en kreppan skall á, vegna þess að ég er sannfærð um að ef við viljum að einstaklingar stofni fyrirtæki, og við viljum aðstoða þá við að stofna fyrirtæki, þurfum við líka að aðstoða þá þegar fyrirtækin lenda í örðugleikum. Ég held að ég hafi heyrt þá tölu að fimm árum eftir að fyrirtæki er stofnað — segjum að við séum með 100 fyrirtæki, þá eru, held ég, um tíu enn starfandi. Það er ekkert endilega út af því að fyrirtækin hafi verið illa rekin, það getur verið vegna þess að það hafi orðið hjónaskilnaður, það geta hafa verið veikindi. Þegar við erum að tala um nýstofnuð fyrirtæki, þar sem einstaklingar standa að stofnun fyrirtækja, er það svo nátengt viðkomandi persónu. Það er því ekki endilega þannig, eins og stundum virðist vera viðhorfið hér á Íslandi, að þeir sem lenda í örðugleikum með fyrirtæki sitt geti kennt sjálfum sér um. Það geta verið alls konar utanaðkomandi aðstæður sem valda því að fyrirtæki lendi í erfiðleikum.

Hér á landi, og að vísu í mörgum öðrum löndum líka, virðist það vera svo að við kennum fólki hvar það eigi að skrá fyrirtækið, við kennum því hvernig búa eigi til markaðsáætlun og viðskiptaáætlun en við kennum því ekki að þekkja einkenni þess þegar hlutirnir fara að ganga illa. Evrópusambandið benti á það árið 2002 að það væri nauðsynlegt, og mjög mikilvægt fyrir samfélagið, að við hjálpuðum fyrirtækjum að komast í gegnum erfiðleika, endurskipulagningu og gjaldþrot. Því fyrr sem við gerum það því minni kostnaður verður það fyrir samfélagið í heild og því minni skaði líka fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans. Það er ástæðan fyrir því að ég vonast til að við sjáum að það er nauðsynlegt að vera með svona stoðkerfi fyrir fyrirtæki sem lenda í greiðsluörðugleikum. Fyrirtæki munu lenda í erfiðleikum. Það er samasemmerki á milli þess að fyrirtæki séu stofnuð og að einhver hluti þeirra lendi í erfiðleikum, það er bara þannig. Meiri hluti þeirra mun meira að segja lenda í örðugleikum. Sumum er hægt að bjarga, öðrum ekki, og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því hvaða fyrirtækjum er hægt að bjarga og hvaða fyrirtækjum er ekki hægt að bjarga því betra er það fyrir samfélagið.

Í erindi sem haldið var á fundi Samtaka iðnaðarins af Orra Haukssyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, undir heitinu Gengisdómurinn, atvinnulífið, skuldavandinn og bankakerfið, er fjallað um þann vanda sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Það er þannig að hryggjarstykkið í atvinnulífinu á Íslandi er ekki stóru fyrirtækin, þó að við viljum oft tala mest um þau, þau fá mesta athyglina. Hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi er lítil fyrirtæki og staðan er þannig að mjög lítið er farið að gera fyrir þau fyrirtæki í bankakerfinu.

Það urðu 910 fyrirtæki gjaldþrota formlega árið 2009. Miðað við þær tölur sem koma frá Hagstofunni árið 2010 stefnir í að það verði að lágmarki jafnmörg fyrirtæki gjaldþrota og það er tvöföldun frá því árið 2005. Við vitum að þetta er bara brotabrot af þeim fyrirtækjum sem eru í greiðsluerfiðleikum og þurfa á aðstoð að halda. Gengislánadómurinn hefur aukið mjög óvissuna um það nákvæmlega hver staðan er og hann hefur líka leitt til þess að atvinnurekendur eru kannski tregari til að fara í gegnum endurskipulagningu á fjárhag sínum. Þeir telja jafnvel að það sem bankakerfið heldur fram sé hreinlega ekki rétt. Að gefnu tilefni treysta þeir ekki bankakerfinu. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að samhliða því að við búum til svona stoðkerfi eða ráðgjöf, feril til að taka á skuldavanda fyrirtækja, skoðum við hvort nauðsynlegt sé að setja lög um lán fyrirtækjanna, að við skiljum þau ekki eftir, eða hvort hægt sé að setja, í gegnum einhvers konar svona batterí, það mikinn þrýsting á bankana að þeir fari að skila þessum afskriftum áfram þangað sem þær eiga að fara.

Samtök iðnaðarins segja að leggja þurfi sérstaka áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki og vil ég sérstaklega taka fram að þetta er ekki kostnaður fyrir ríkið. Það hefur þegar komið fram að það eru það stórir afskriftasjóðir í bönkunum að það á að vera hægt að endurskipuleggja meira og minna öll fyrirtæki sem þurfa á því að halda. Það þarf hins vegar að búa til hraðvirkari farveg og tryggja það, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur raunar lagt áherslu á, að sá kostnaður lendi á þeim sem er þegar búinn að fá ákveðinn sjóð til að dekka þær afskriftir.

Ég vil líka taka fram að meginhlutann af þingferli mínum hef ég talað fyrir því að fara í almenna leiðréttingu á skuldum einstaklinga, heimila. En ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að það er til lítils að lækka skuldir einstaklings ef hann hefur enga vinnu. Undirstaða velferðar hér á Íslandi, undirstaðan fyrir því að við náum að byggja okkur upp, að við náum að auka hagvöxtinn eins og við þurfum, er það að við náum að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækjanna, að við gerum okkur grein fyrir því hvaða fyrirtæki eru lífvænleg, hvaða fyrirtæki það eru sem við getum bjargað, og hin fyrirtækin fari þá í þrot. Þá losnar um þá einstaklinga sem reka þau fyrirtæki og við þurfum að tryggja að þeir geti farið af stað aftur því að það skapast þekking hjá þeim sem reka fyrirtæki, líka hjá þeim sem fara með fyrirtækin sín í þrot, og við eigum að gefa því fólki tækifæri á að hefja rekstur aftur.

Það er raunar alveg sláandi, þegar maður fer í gegnum þessar glærur, hvað þessi hagsmunasamtök hafa miklar áhyggjur af stöðunni hjá minni fyrirtækjum. Hér eru líka ábendingar, sem ég held að séu mjög mikilsverðar. Ég hef að vísu sent þetta mál til þriggja nefnda núorðið, til iðnaðarnefndar, efnahags- og skattanefndar og til viðskiptanefndar, og hef í hyggju, að lokinni þessari umræðu, að óska eftir því að málinu verði vísað aftur til viðskiptanefndar. Rökstuðningurinn fyrir því er sá að fjármálakerfið fellur undir viðskiptanefnd. Ég tel líka nauðsynlegt, til að við getum átt heilbrigt bankakerfi, til að við getum verið með sterkt fjármálakerfi, að ljúka við endurskipulagningu þessara fyrirtækja. Við þurfum að ná að koma þeim út úr bankakerfinu, að þau séu ekki lengur í fanginu á bönkunum og bankarnir geti hætt að vera einhvers konar fjárhagslegar endurskipulagningarstofnanir yfir í það að verða þær þjónustustofnanir sem þeir eiga að vera. Þeir eiga ekki að vera að velta fyrir sér hvort þeir eigi að taka yfir fyrirtæki og selja þau síðan einhverjum öðrum heldur eiga þeir að vera í því að styðja viðskiptavini sína og koma fjármagni yfir til þeirra sem geta gert sem mest úr því. Og bankakerfið verður aldrei sterkara en fjárhagur fyrirtækja og heimila leyfir. Þeir eru þjónustustofnun fyrir samfélagið og til að þeir geti lifað af þarf að endurreisa atvinnulífið.

Vandinn er hins vegar sá, eða það hefur manni kannski fundist, að hagsmunir núverandi eigenda, og nú er ég ekki að tala um ríkið heldur kröfuhafa, sem eru þá eigendur tveggja bankanna og raunar minni fjármálastofnana líka, eru ekki endilega hinir sömu og okkar. Þeir hafa ekki endilega þessi langtímasjónarmið í huga sem við höfum og því tel ég líka enn meiri ástæðu til að hið opinbera fari að skipta sér af fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækjanna.

Ég vona svo sannarlega að þetta verði í síðasta skipti sem ég stend hér og tala fyrir þessari tillögu. Ég vona að hún fari í gegn. Mér til mikillar ánægju hefur flutningsmönnum fjölgað í hvert skipti sem ég hef lagt hana fram. Ég var hins vegar mjög miður mín yfir því að sjálfstæðismenn ákváðu nú í fyrsta skipti að vera ekki á tillögunni. Ég veit ekki hvort það endurspeglar ákveðna stefnubreytingu hjá þeim, að vilja leggja meiri áherslu á stærri fyrirtækin. Á milli Sjálfstæðisflokksins og lögfræðistéttarinnar eru líka ákveðin tengsl, eins og þekkt er, og vel má vera að það hafi spilað eitthvað inn í í þessu tilviki. En ég vona að þeir endurskoði hug sinn og taki undir þessa tillögu og styðji hana því að Ísland þarf hreinlega á þessu að halda.