139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

25. mál
[16:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hún kom inn á það í seinni hluta svarsins með hvaða hætti hún sæi fyrir sér að þetta yrði fjármagnað. Ég hafði einmitt hugsað mér eða séð það fyrir mér líkt og hv. þingmaður að þetta yrði fjármagnað með sama hætti eða svipuðum og umboðsmaður skuldara og af því leiddi þá að það væru samlegðaráhrif. Við skulum segja að þetta þurfi ekki að vera nákvæmlega sömu stofnanirnar en ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála í því að samlegðaráhrifin og þekkingin sem getur skapast á einum slíkum vinnustað eða mjög nánum slíkum systurstofnunum, eins og þarna gætu verið á ferðinni, geta skilað miklu, einkum og sér í lagi hraðari og betri úrlausnum fyrir þessi minni fyrirtæki, sem eru akkúrat fjölskyldufyrirtæki, og þar með einmitt auknum ávinningi fyrir hagkerfið.