139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

úrræði fyrir skuldara.

[14:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra átti sig alls ekki á því að úrræðin sem sniðin hafa verið eru ómöguleg, fólki finnst þau vera niðurlægjandi. Ég skal nefna tvö dæmi um allt of þröng úrræði: Annars vegar framfærsluviðmiðið þar sem fólk er einfaldlega ekki tilbúið að láta skammta sér skít úr hnefa eftir að það hefur komist í greiðsluaðlögun, og síðan hitt sem snýr að sérstakri athugun á því hvort fólk hafi hegðað sér með óábyrgum hætti. Það er greinilegt að því er fylgt svo stranglega eftir að fólk er ekki tilbúið að fara um þau svipugöng sem þar er um að ræða. Ég trúi því einfaldlega ekki að hæstv. forsætisráðherra ætli að koma hingað upp aftur og segja að það sé vegna þess að fólk hafi ekki kynnt sér úrræðin nægilega vel.

Varðandi seinna atriðið er spurningin sem stendur upp á hæstv. forsætisráðherra þessi: Er hún tilbúin til þess að fórna tugum milljarða af almannafé í hina almennu niðurfærslu? Það er það sem umræður hafa snúist um, (Forseti hringir.) hversu kostnaðarsamt það er. Þetta er ekki bara spurning um hvað bankarnir eru tilbúnir að gera. Þetta er líka spurning um hvaða hugmyndir ríkisstjórnin sjálf hefur fram að færa.